Almar semur við Keflavík
Miðherjinn Almar Stefán Guðbrandsson skrifaði í gær undir tveggja ára samning við Keflavík í Domino´s deild karla í körfubolta. Almar hóf sl. leiktíð með Keflvíkingum en gekk um miðbik tímabilsins til liðs við ÍG. Með nýjum þjálfara koma ný tækifæri og Almar ákvað strax að hann hyggðist taka slaginn með sínu uppeldisfélagi. Frá þessu er greint á heimasíðu Keflvíkinga.
Þá skrifaði Aron Ingi Albertsson einnig undir tveggja ára samning en um er að ræða fyrsta samning Arons í meistaraflokki. Aron sem var í skiptinámi í Argentínu um tíma, er bróðir Ragnars Geralds leikmanns meistaraflokks og sonur varnarjaxlsins Alberts Óskarssonar.
Myndir: Almar og Aron ásamt Sævari Sævarssyni, stjórnarmanni KKDK, við undirskrift í gær.
Aron Ingi Albertsson handsalar samninginn við Sævar Sævarsson.