Almar og Óli Geir hættir hjá Keflavík
-Ragnar Gerald í fríi um sinn
Keflvíkingar hafa misst frá sér þrjá leikmenn í meistaraflokki karla í körfuboltanum að undanförnu. Þeir Almar Guðbrandsson, Óli Geir Jónsson og Ragnar Gerald Albertsson eru hugsanlega hættir hjá liðinu en að baki liggja ýmsar ástæður.
Hinn hávaxni leikmaður Keflvíkinga, Almar Guðbrandsson, hefur ákveðið að hætta að leika með liðinu í Domino’s deild karla í körfubolta. Gunnar Stefánsson aðstoðarþjálfari liðsins staðfesti ákvörðun Almars í samtali við Víkurféttir. Gunnar segir að miðherjanum hafi staðið til boða að leika áfram með liðinu en hann hafi ekki óskað eftir því. Almar taldi að hann hafi ekki fengið þau tækifæri sem hann hafði vonast eftir og því taldi hann best að róa á önnur mið. „Almar er að berjast við besta miðherja Íslands (Michael Craion) og því er samkeppnin hörð.“
Hinn 208 cm hái Almar sagði að honum og þjálfaranum Andy Johnston kæmi ekki saman og að þess vegna væri nú komið að leiðarlokum. „Hlutverk mitt í liðinu var lítið sem ekki neitt,“ sagði Almar í samtali við Karfan.is.
„Svona stórir menn eru vandfundnir á Íslandi og það er leiðinlegt að missa svona sannan Keflvíking úr liðinu. Hann hafði sínar ástæður en tækifæri stóð honum til boða. Andy ætlaðist til mikils af honum og svo er bara undir honum komið að sýna hvað í honum býr,“ segir Gunnar og bætir því við að Almar, sem er 23 ára gamall, hafi lengi verið efnilegur en erfitt hafi reynst að stíga næsta skref.
Óli Geir Jónsson er mörgum kunnur fyrir allt annað en körfubolta. Óli Geir er frambærilegur leikmaður og hefur undanfarin ár leikið við góðan orðstír hjá Reyni Sandgerði í 2. deild.
„Óli Geir vildi fá fleiri tækifæri en þau voru ekki að bjóðast fyrir hann,“ segir Gunnar sem sjálfur þekkir það hlutverk að vinna sér sæti í sterku Keflavíkurliði. „Stökkið er stórt frá 2. deild. Óli er búinn að leggja hart að sér og menn eiga skilið tækifæri ef þeir vinna vel fyrir því. Ég tel að hann hafi fengið ágætis tækifæri. Það eru ekki allir sem taka þetta stökk í úrvalsdeildarlið Keflavíkur og ætlast til þess að fá að spila mikið.“ Eins og staðan er núna er Óli Geir erlendis í leyfi og óvíst hvort hann klæðist Keflavíkurtreyjunni aftur.
Ragnar hefur ekki leikið körfubolta um skeið en það mun vera af persónulegum aðstæðum. „Hans er sárt saknað í okkar herbúðum. Þegar hann er tilbúinn þá kemur hann vonandi aftur,“ sagði Gunnar.
Keflvíkingar eiga unga stráka sem banka á dyrnar hjá liðinu. „Það kemur maður í manns stað hjá Keflavík. Það er nógur efniviður hér og strákar sem eru tilbúnir að stíga upp,“ sagði Gunnar aðstoðarþjálfari að lokum.