„Alltaf jafn gaman!“
Anna María Sveinsdóttir, reyndasti leikmaður Keflavíkur, lék framúrskarandi vel í úrslitarimmunni. Hún hefur hampað öllum 11 titlum Keflvíkinga frá upphafi en segist alls ekki vera komin með leið á að lyfta bikurum. „Það verður aldrei leiðinlegt. Þetta er alltaf jafn gaman, þess vegna hangir maður í þessu.“ Aðspurð að því hvort hún muni spila með liðinu á næsta tímabili segir hún ekkert því til fyrirstöðu. „Ég á ekki von á öðru. Þessar stelpur eru svo skemmtilegar og við erum allar góðar vinkonur.“
Anna bætti við að lokum að ekki þyrfti að kvíða framtíðinni þar sem Keflavík ætti mikið af frábærum leikmönnum í öllum yngri flokkum. „Þannig að ég kvíði ekki næstu 20 árum!“
Erla Þorsteinsdóttir, fyrirliði Keflavíkur, lyfti í kvöld fimmta bikar vetrarins. Hún játaði því að þær hefðu ekki þurft að hafa mikið fyrir titlinum að þessu sinni. „Þetta var eiginlega mjög létt!“ Keflavíkurliðið lenti í miklum erfiðleikum með Grindavík í undanúrslitum, en sigldi nokkuð lygnan sjá á móti ÍS í úrslitunum sjálfum og vann þær í þremur leikjum í röð. „Þetta var miklu betra núna. Loksins náðum við að sýna hvað við getum. Það var ákveðin hugarfarsbreyting, en svo pressuðum við meira á þær og gáfum allt í þetta. Þetta er búið að vera frábært ár! Við erum búnar að vinna allt og þetta eru allt saman heimastelpur í liðinu og enginn Kani. Þetta er bara meiriháttar!“
Erla tók undir orð Önnu Maríu og sagði framtíðina bjarta í kvennakörfunni hér í Keflavík. Allaveganna bjuggust tvær af efnilegri körfuknattleiksstúlkum landsins, þær María Ben Erlingsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir, við því að lyfta fleiri bikurum á næstu árum, en þær eru báðar 15 ára gamlar og að leika sitt fyrsta ár með meistaraflokki.