Allt er þá þrennt er - Hörður Axel gerir það gott í Þýskalandi
Hörður Axel Vilhjálmsson hefur látið til sín taka á körfuboltavellinum að undanförnu en kappinn samdi við lið í Þýskalandi nú í sumar og hefur honum gengið vel að aðlagast lífinu í Þýskalandi. Hann er næst stigahæstur í liði sínu Mitteldeutchland Basketball Club (oftast kallað MBC) sem er þessa stundina í efsta sæti í þýsku Pro A deildinni en liðið féll úr úrvalsdeild í fyrra.Hann býr í bænum Weissenfels ásamt unnustu sinni Hafdísi Hafsteinsdóttur en blaðamaður heyrði hljóðið í Herði og forvitnaðist um þýskan körfubolta og líf atvinnumannsins þar í landi.
Upphaflega stóð til að Hörður yrði vara leikstjórnandi hjá liðinu en hann var fljótur að vinna sér sæti í byrjunarliðinu og hefur nú byrjað alla leikina nema fjóra. „Núna hef ég verið færður upp í skotbakvörðinn vegna meiðsla annara leikmanna, einnig hafa leikmenn sem stóðu ekki undir væntingum yfirgefið liðið. Þannig það má í raun segja að það gangi betur en við var búist af mér,“ segir Hörður sem er með 11,2 stig að meðaltali í leik, 3,8 stoðsendingar og 2,1 frákast og leikur að jafnaði 23,55 mínútur með MBC. Tölurnar hafa verið upp á við hjá Herði að undanförnu en hann hefur verið í miklu stuði upp á síðkastið.
Stefndi alltaf út í atvinnumennskuna
Hörður er með umboðsmann sem hefur unnið markvisst með honum síðasta ár, en Hörður hafði sett stefnuna á atvinnumennsku. Umboðsmaðurinn fann nokkur lið sem höfðu áhuga á Herði og þetta lið bauð honum út til að kíkja á aðstæður. „Það endaði síðan með því að mér leist það vel á klúbinn, og þeim á mig, að ég skrifaði undir samning meðan ég var enn úti á reynslu,“ segir Hörður en hann telur liðið vera býsna sterkt. „Samkvæmt fólki hérna erum við með mannskap sem myndi spjara sig ágætlega í efstu deild í Þýskalandi,“ en liðið stefnir hraðbyr þangað.
Eini útlendingurinn eftir í liðinu
Hörður segir allt vera til fyrirmyndar hjá liðinu og allt á fagmannlegu nótunum. Æft sé tvisvar á dag og liðið borðar ávallt hádegismat saman enda sé mikið lagt upp úr því að leikmönnum líði sem best. Einhverjar breytingar hafa verið á leikmannahópnum og er Hörður einn eftir af þeim erlendu leikmönnum sem komu til liðsins fyrir tímabilið. „Menn hafa verið að meiðast og svo hafa einhverjir einfaldlega ekki verið að standa undir væntingum. Ég er því eini útlendingurinn sem er eftir sem samdi við liðið í upphafi tímabils.“
Hvernig hefur gengið það sem af er tímabili?
„Liðinu hefur gengið mjög vel við erum eins og er efstir í deildinni með 4 stiga forskot og innbyrðis viðureignir á næstu lið. Við fórum aðeins af sporinu rétt fyrir jól og töpuðum þar tveimur leikjum í röð, þar fór takturinn aðeins úr liðinu. Ef það hefði ekki verið fyrir þann slæma kafla værum við líklega búnir að tryggja okkur heimavallarétt í úrslitakeppninni þótt enn séu 10 leiki eftir í deildinni.“ Persónulega hefur gengið vel hjá Herði. „Ég kom hingað út og átti að vera varamaður, það hefur gerjast þannig að ég vann mér sæti í byrjunarliðinu og hef byrjað alla leiki nema fjóra,“ segir Hörður sem jafnan er vanur að setja markið hátt.
Þú er vanur að setja þér markmið, hver eru þín markmið hjá þessu liði?
„Mitt fyrsta og helsta markmið er að komast upp með liðinu. Það væri mjög stórt skref fyrir ferilinn að spila í Bundes-deildinni á næsta ári. Svo eru ýmis lítil markmið sem ég hef sett mér sem ég hef ýmist náð eða er enn að vinna að,“ segir Hörður sem er þekktur fyrir vinnusemi sína og gríðarlegan metnað. Hann segist stefna á það að klára tímabilið með liðinu en hann hefur ekki enn lokið heilu tímabili á erlendri grundu þrátt fyrir að hafa farið tvívegis utan á yngri árum.
Allt er þá þrennt er
17 ára gamall fluttist Hörður til Kanaríeyja þar sem hann hugðist hefja atvinnumannaferil sinn en á þeim tíma var Hörður eitt mesta efni sem Ísland hafði séð í áraraðir. Það fór ekki betur en svo að hann var engan veginn tilbúinn í heim atvinnumennskunnar og hélt heim eftir aðeins 5 mánaða veru á Spáni þar sem hann kláraði tímabilið með uppeldisfélagi sínu Fjölni.
Næsta tímabil ákvað Hörður að söðla um og gekk til liðs við Njarðvík eftir misheppnaða tilraun til að komast að hjá liði á Ítalíu. Hörður lýsir því tímabili sem því furðulegasta sem hann hafi upplifað í körfuboltanum. „Ég eignaðist nokkra af mínum bestu vinum í Njarðvík og kynntist einnig unnustu minni þar. En inná vellinum var þetta án efa slakasta tímabil mitt hingað til,“ segir Hörður en þrátt fyrir slakt tímabil var honum boðinn samningur á Spáni eftir tímabilið sem hann þáði. Það gekk hins vegar ekki upp og að lokum var Hörður látinn fara frá félaginu eftir stutta dvöl.
Við það mótlæti umturnaðist líf Harðar. Hann áleit sjálfan sig ekki nógu góðan til að spila á atvinnumannastigi. „Ég ákvað að gera allt sem ég gæti til þess að ég myndi bæði aldrei upplifa þessa tilfinningu aftur og til þess að sanna fyrir þeim sem ráku mig að þarna hefðu þeir gert mikil mistök.“
Hörður setti sér því 10 ára markmið. Hann ákvað strax frá fyrsta degi að hann ætlaði sér að leika 3 ár heima og undirbúa sig, bæði líkamlega, andlega og tæknilega fyrir atvinnumennskuna.
Hann gekk því næst til liðs við Keflavík, sem hann segir vera bestu ákvörðun á sínum körfuboltaferli. „Núna er ég á fjórða ári í mínum markmiðum. Eins og er þá er ég á pari, kominn út eins og ég ætlaði mér. Auðvitað hafa komið upp nokkrir hlutir sem hafa ekki gengið upp, eins og t.d. ætlaði ég mér að hafa unnið Íslandsmeistaratitil nú þegar. En það gekk ekki, enda ganga ekki öll markmið upp,“ segir Hörður.
Lækkuðu meðalaldurinn í bænum töluvert
Það er margt auðveldara heldur en þýska að mati Harðar en hann hefur náð tökum á setningum og orðum en þó ekki eins hratt og hann hefði viljað. „Vonandi kemur hún nú fljótlega ef ég verð hér aftur næsta tímabil,“ segir Hörður en hann segir lífið í bænum oft á tíðum vera full rólegt. „Það eru um 30 þúsund manns sem búa hér og með tilkomu mín og Hafdísar lækkaði meðalaldurinn talsvert í bænum. Annars er bærinn mjög vingjarnlegur og fólkið hérna sem er tilbúið að gera allt fyrir mann. Þannig að við höfum vanist þessu ágætlega en betra væri að hafa aðeins meira að gera á frídögum og milli æfinga“
Hvernig er þessi dvöl búin að vera frábrugðin því þegar þú hefur áður farið út?
„Ég hef enst hérna,“ segir Hörður í léttu gríni en hann telur sjálfan sig vera töluvert breyttan frá því að hann reyndi fyrir sér sem atvinnumaður áður fyrr. „Það sem ég tel vera mest frábrugðið er í rauninni ég sjálfur. Ég hef þroskast mjög mikið, bæði sem leikmaður og manneskja síðan ég var seinast úti. Ég vann markvisst að því að gera mig tilbúinn í nokkur ár og það virðist hafa skilað sér nokkuð vel, allavega kann ég mjög vel við mig hérna og þeir eru sáttir við það framlag sem ég veiti þeim,“ en Hörður fór ekki einn í þetta skiptið eins og áður. „Að hafa Hafdísi hér hjá mér er líka ómetanlegt, hún gerir allt mun auðveldara heldur en það væri ef ég væri hér einn, er ég henni ævinlega þakklátur fyrir að hafa komið með mér og hjálpað mér að láta einn af mínum draumum verða að veruleika.“
Hvernig er körfuboltinn þarna úti?
„Körfuboltinn er mjög frábrugðinn því sem maður hefur vanist heima og það tók mig tíma að venjast boltanum hérna. Þetta er mun agaðri körfubolti hérna, vel skipulagður bæði sóknarlega og varnarlega. Við förum t.d. vel yfir hvern einasta andstæðing og eyðum 2-3 dögum í hverri viku að fara yfir kerfi andstæðingsins og hreyfingar leikmannanna þeirra. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef tekið þátt í svona miklum undirbúning fyrir hvern einasta leik og mér finnst það mjög spennandi,“ segir Hörður sem augljóslega kann vel við sig í umhverfi atvinnumannsins en hann hefur lengi sóst eftir þessu tækifæri.
Andrúmsloftið eins og í úrslitakeppni í hverri viku
Deildin er mun sterkari en Hörður bjóst við. Flest lið eru með 4-5 kana en reyndar er regla í deildinni sem setur þau takmörk að tveir Þjóðverjar verða að vera inná hverju sinni. „Leikmennirnir hér eru töluvert hávaxnari en heima þannig að maður þurfti að aðlaga leik sinn töluvert að því með því að klára hraðar svo að stóru mennirnir komist ekki að boltanum. Annars þarf maður einfaldlega bara að fara hærra til að klára færin,“ en Hörður er þekktur fyrir að vera mikill háloftafugl þrátt fyrir að gegna jafnan stöðu leikstjórnanda og vera ekki ýkja hár í loftinu, svona eins og gengur og gerist hjá körfuboltamönnum en Hörður nær þó 1. 94 cm.
Það eru að jafnaði að mæta um 3000 manns á leiki hjá MBC og Hörður lýsir stemningunni líkt og þar sé ávallt úrslitakeppni eins og við þekkjum hér heima. „Stemningin á heimaleikjum á það til að vera svakaleg, maður er í raun að spila í úrslitakeppnis andrúmslofti í hverri viku. Umgjörðin er til fyrirmyndar, klappstýrur, lukkudýr, grill og með því á öllum leikjum. Svo er seldur varningur tengdur liðinu á leikjum s.s.: treflar, búningar, fánar og margt fleira.
Hafdís ekki mikið fyrir að sitja heima
Hafdísi unnustu Harðar líður mjög vel úti en það hefur hins vegar verið ágæt áskorun að finna eitthvað að gera hérna fyrir hana þar sem hún er ekki mikið fyrir það að sitja heima að sögn Harðar. Hún stefnir á að byrja í Bifröst næsta haust þar sem er tekið mikið tillit til aðstæðna. Hafdís fékk vinnu í Hollister og er að byrja þar eftir helgi. „Þar sem bærinn er mjög lítill þekkjast allir og er komið ótrúlega vel fram við okkur, Hafdís æfir til dæmis frítt í mjög flottri æfingarstöð fyrir konur og hefur verið dugleg að mæta þangað. Við erum annars dugleg að kikja til Leipzig sem er borg hálftíma frá okkur á frídögum og gera eitthvað saman. Þar sem við erum einstaklega heppin með fjölskyldu og vini þá höfum við verið með gesti í hverjum mánuði frá því að við fluttum út og eru fleiri heimsóknir bókaðar á næstunni. Svo tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða og minnum við okkur reglulega á að njóta þess að vera hérna saman.“
Vægi útlendingana komið út í öfgar
Hörður fylgist með gangi mála í körfunni á Íslandi en hann reynir alltaf að sjá leik á netinu í hverri umferð. „Þar sem Keflavík er ekki með beinar útsendingar verður maður að sætta sig við að horfa á önnur lið,“ segir Hörður sem styður jafnan Keflvíkingana. „Ég verð nú að segja að ég fylgist mest með Keflavík og styð þá. En annars fylgist ég vel með Fjölni þegar Hjalti bróðir er að spila.“ Hann segir deildina vera mjög jafna og spennandi. „Mér finnst reyndar vægi útlendingana komið út í öfgar, lítið er um Íslendinga sem eru í afgerandi hlutverkum í sínum liðum.“
Fer vel um ykkur þarna?
„Íbúðin sem við fengum er mjög fín og höfum við reynt að gera hana að okkar með að setja myndir og annað að heiman. Við fengum einnig nýjan bíl og gerir liðið hérna allt til að láta okkur líða vel. Þegar eitthvað hefur bilað eða eitthvað vantar er búið að laga það samdægurs. Okkur hefur gengið vel að komast inn í menninguna hérna þar sem allt er mun agaðara, t.d eru engar búðir opnar lengur en til 10 á kvöldin og allt er lokað á sunnudögum sem eru fjölskyldudagar hérna.“
Ertu búinn að kynnast liðsfélögunum vel, gerir liðið eitthvað saman?
„Ég hef kynnst öllum þokkalega. Við höfum gert margt saman, við höfum mest verið með könunum í liðinu, aðallega þeim sem eru með kærustur með sér. Við höfum t.d. haldið Thanksgiving saman, fagnað nýju ári, og boðið að borða til skiptis. Síðan bara þetta venjulega, Playstation við og við og þess háttar.“
Hvernig sérðu framhaldið þarna hjá þér?
„Ég samdi hér til þriggja ára. Eins og er, erum við bara að einblína á þetta tímabili, að koma liðinu upp, svo sér maður til hvað gerist í framhaldinu,“ segir Hörður Axel Vilhjálmsson að lokum.
Systurnar Helga og Hafdís með trefil af dýrari gerðinni.