Allir vinir eftir leik
- Grindvíkingar fá Keflvíkinga í heimsókn í 1. deild kvenna
Grindvíkingar og Keflvíkingar eigast við í 1. deild kvenna í fótbolta í dag, föstudag, klukkan 19:15 á Grindavíkurvelli. Grindvíkingar eru fyrir leikinn í þriðja sæti deildarinnar en Keflvíkingar eru á botninum. Um er að ræða nágrannaslag af bestu gerð en búist er við hörkueik.
Margrét Albertsdóttir framherji Grindvíkinga hefur verið á skotskónum það sem af er sumri. Hún býst við hörkuleik enda er ágætis rígur á milli Suðurnesjaliðanna. „Það er aldrei öruggur sigur þegar um nágrannaslag er að ræða. Það er ekki hægt að taka því sem gefnu þó svo að þær séu neðar í töflunni en við. Það er allt gefið í þetta hjá báðum liðum en svo eru allir vinir eftir leik,“ segir Margrét létt í bragði. Grindvíkingar voru nálægt því að komast upp í úrvalsdeild í fyrra en töpuðu í umspili fyri sterki liði Fylkis. „Markmiðið er að fara upp um deild hjá okkur, við erum með nógu sterkt lið að mínu mati,“ segir Margrét en einu leikirnir hjá Grindvíkingum sem ekki hafa gengið upp í sumar komu í upphafi tímabils þegar liðið var ekki fullskipað.
Myndin hér að ofan er ein af skemmtilegum auglýsingum sem Grindvíkingar hafa verið að útbúa að undanförnu en þær hafa vakið nokkra athygli. „Maður finnur fyrir því að fólk er spennt fyrir næstu auglýsingum hjá okkur og það ýtir undir stemninguna hjá okkur.“
Margrét sem er 25 ára hefur skorað sex mörk í sumar en hún er að jafna sig eftir meiðsli frá því í vetur. Hún skoraði 19 mörk í fyrra og segist óðum vera að finna fyrra form.
Stöngin út hjá Keflvíkingum
Anna Rún Jóhannsdóttir fyrirliði Keflvíkinga telur að það verði boðið upp á spennandi leik í Grindavík. „Það eru alltaf hörkuleikir í Grindavík, ég held að þetta geti dottið báðum meginn.“ Keflvíkingar eru á botninum með eitt stig eftir sjö leiki og eru skiljanlega ósáttar með það. „Þetta hefur verið meira stöngin út hjá okkur í sumar. Það er bara spurning um hvenær þetta smellur saman hjá okkur. Við verðum bara að vera þolinmóðar,“ segir fyrirliðinn. Hún er ein af reynsluboltunum í liðinu sem er mjög ungt. Stærstur hluti liðsins er ennþá að spila í 2. flokki. Anna segir margar efnilegar stelpur vera í liðinu en hún er þó á því að reynsluleysið sé að há liðinu. „Ungu stelpurnar þekkja nánast ekkert annað en að tapa þegar þær spila með meistaraflokk, sem er alveg ótrúlega leiðinlegt. Þær þurfa að fara að finna það hvernig er að sigra og þá förum við að fá trú á því að við getum þetta. Það skortir kannski trú og sigurhefð,“ segir Anna.