Allir leikmenn Keflavíkur skoruðu
Íslandsmeistarar Keflavíkur unnu auðveldan sigur á Fjölni í Iceland Express deildinni í körfubolta kvenna í gærkvöldi. Lokatölur urðu 99-50. Í leikhlé var staðan 53-15.
Allir leikmenn Keflavíkur skoruðu í leiknum. Þegar hálf mínúta var eftir kallaði Jón Halldór þjálfari inn á völlinn og sagði sínum liðsmönnum að taka kerfi sem átti að enda á Hildi Björk Pálsdóttur, nýliða í Keflavíkurliðinu sem var ekki búin að skora í leiknum. Það gekk eftir og hún skoraði þriggja stiga körfu 20 sekúndum fyrir leikslok og fékk mikið fagn frá áhorfendapöllunum. Það er ekki á hverjum degi sem allir leikmenn skora stig í sama leiknum en aðeins vantaði herslumuninn að liðið kæmist yfir 100 stigin sem gerist ekki á hverjum degi.
Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði mest hjá liðinu eða 23 stig, Birna Valgarðsdóttir var með 18 stig, Ingibjörg Elva 12 stig. Allir aðrir leikmenn voru með undir tíu stigum.
Fjölnisstúlkur sáu aldrei til sólar í þessum leik en Birna Eiríksdóttir skoraði mest hjá þeim eða 14 stig.
Grindavíkurstúlkur lentu í svaka leik í Hveragerði en urðu að lúta í gras 87-84 eftir tvíframlengdan leik.
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir skorar í leiknum gegn Fjölni.
Pálína Gunnlaugsdóttir var öflug að venju og skoraði 23 stig.
Marín Rós Karlsdóttir er komin á fulla ferð aftur með Keflavík. Hún skoraði 9 stig.
Birna Valgarðsdóttir virðist geta skorað þegar hún vill. Hún skilaði 18 stigum í þessum leik.
Hildur Björk skoraði síðustu körfuna í leiknum og tryggði að allir leikmenn Keflavíkur kæmust á blað.
Lóa Dís Másdóttir er ein af ungu stúlkunum í liðinu, hún skoraði 6 stig.
Rannveig Randversdóttir skoraði níu stig gegn Fjölni. VF-myndir/Páll Orri.