Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Allar í stíl á gönguskíðum
Sunnudagur 4. mars 2018 kl. 07:00

Allar í stíl á gönguskíðum

- Kristín Jóna Hilmarsdóttir stundar gönguskíði í góðum félagsskap

„Ég er í gönguhóp sem samanstendur af fjórtán konum og fyrir um það bil fimm árum fórum við að tala um að æfa okkur á gönguskíðum yfir vetratímann en sumar í hópnum höfðu áður verið á gönguskíðum sem krakkar. Úr var að ég fékk gönguskíði í jólagjöf árið 2013 og fór með stelpunum upp í Bláfjöll,“ segir Kristín Jóna aðspurð hvað hafi upphaflega fengið hana í íþróttina.

„Milla vinkona mín kenndi mér undirstöðuatriðin, svo æfði ég mig bara og þá aðallega í að detta, þar sem jafnvægið er nú svolítið öðruvísi en á svigskíðum. En sem betur fer var ég vön skíðakona svo þetta var nú frekar fljótt að koma en maður er alltaf að læra. Þegar við vorum að byrja að fara í Bláfjöllin var nánast enginn á gönguskíðum, þetta þótti nú bara pínu „halló,“ en fyrir vikið áttum við svæðið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hópurinn æfir aðallega í Bláfjöllum en þar eru lagðar brautir og aðstaðan góð. „Við hittumst stelpurnar, þær koma sem komast og svo eru sumar búnar að draga makana með. Kærastinn minn er mjög duglegur að koma með mér. Í Bláfjöllum er ýmist hægt að fara stuttan hring á flatanum eða lengri hring sem eru rúmir 10 km upp á heiði sem mér finnst æðislegt í góðu veðri.“

Árið 2016 tók Kristín þátt í fyrstu skíðagöngukeppninni, Skarverennett, í Noregi með nokkrum vinkonum. „Það var bara byrjunin, 38 km, sem mér fannst alveg hellingur svona í fyrsta skipti. En það gekk svona svakalega vel, við fengum okkur allar eins galla og höfum við haldið okkur við það að kaupa okkur eins „outfit,“ segir Kristín og neitar því ekki að það veki athygli. „Okkur finnst það ekki leiðinlegt, maður þarf að „lúkka“ vel!“

Í fyrra var svo förinni heitið í stóra 90 km keppni í Svíþjóð sem kallast Vasaloppett. Þar eru keppendur um sextán þúsund og taka margir af frægustu gönguskíðaköppunum þátt árlega. „Við vorum stór hópur sem fórum saman. Við gistum í Trysel í Noregi sem er æðislegt gönguskíðasvæði og æfðum við okkur í nokkra daga fyrir keppni. Keppnin sjálf var mjög erfið og ég var bara mjög sátt að geta klárað.“

Nýlega fór hópurinn á gönguskíðanámskeiðið „Bara ég og stelpurnar“ á Ísafirði, annað árið í röð. „Þetta var alveg ótrúlega gaman og mikið fjör, við lærðum svo margt enda flottir kennarar og allt til fyrirmyndar. Þarna voru 60 konur samankomnar, bæði byrjendur og lengra komnar og var okkur raðað í hópa eftir því. Gönguskíðasvæðið á Ísafirði er eins og það gerist best í útlöndum, svona þegar veðrið er til friðs. En það er bara svo ótrúlegt að þegar maður er kominn út, sama hvernig veðrið er þá er það ekki spurning um veðrið heldur hvernig maður klæðir sig,“ segir Kristín.

Er íþróttin að verða sífellt vinsælli hér á landi?
Já, gönguskíðin eru orðin mjög vinsæl hér á landi og ótrúlegur fjöldi að stunda þau. Þetta er nefnilega svo góð hreyfing fyrir allan líkamann, engin högg á liðina og fyrir mig til dæmis, sem má helst ekki hlaupa, þá er þetta alveg fullkomið. Það sem er líka svo gaman er að við erum búin að kynnast svo mikið af skemmtilegu fólki og alltaf er verið að plana eitthvað skemmtilegt.

Næst á dagskrá er Fossavatnsgangan á Ísafirði í apríl en hópurinn er að sjálfsögðu farinn að skoða fleiri keppnir erlendis á næsta ári. „Það er nefnilega svo gaman að hafa eitthvað til að stefna að og æfa fyrir, það gerir þetta allt svo skemmtilegt,“ segir Kristín og bætir við að þegar fer að vora og snjó tekur að leysa færa þær sig yfir í annað sport, fjallaskíðin. „Ekki er það nú síðra og farið að verða ansi vinsælt á Íslandi.. en það er efni í annað viðtal,“ segir Kristín að lokum og hlær.