Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Algjört lykilatriði að vinna hér heima
Fimmtudagur 19. júlí 2007 kl. 23:28

Algjört lykilatriði að vinna hér heima

Keflvíkingar unnu í kvöld einn sinn stærsta sigur í sögu Knattspyrnudeildarinnar er þeir lögðu fyrnasterkt lið Midtjylland frá Danmörku að velli 3-2 á Keflavíkurvelli. Það var færeyski landsliðsmaðurinn Símun Samuelsen sem var hrókur alls fagnaðar en hann gerði sigurmark leiksins á 57. mínútu með glæsilegu skoti og þá átti hann eina stoðsendingu sem gaf mark í kvöld.

 

Keflavík fer því með sigur í farteskinu til Danmerkur þegar liðin mætast öðru sinni í undankeppni UEFA keppninnar 2. ágúst næstkomandi.

 

Gestirnir í Midtjylland voru mun sterkari aðilinn í upphafi leiks og voru meira með boltann. Vörn Keflavíkur var hriplek sem og miðjan og því áttu gestirnir nokkuð greiðan aðgang að marki heimamann. Á 9. mínútu leiksins braut Baldur Sigurðsson á Sergey Dadu skammt utan við vítateig og fengu gestirnir aukaspyrnu sem Dadu tók sjálfur. Spyrnan var glæsileg og hafnaði í hægra markhorninu og staðan orðin 0-1 gestum í vil.

 

Skömmu síðar eða á 20. mínútu prjónaði Kolja Afryie sig upp hægri kantinn, komst inn í teig og skaut að marki góðu skoti sem hafnaði í netinu og staðan verðskuldað orðin 2-0 gestunum í hag. Keflvíkingar voru sem fjaðurlausar hænur í upphafi leiks en neistinn kom þegar Hallgrímur Jónasson var felldur í vítateignum á 27. mínútu og dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu.

 

Guðmundur Steinarsson fór með fallbyssuna sína á punktinn en lét verja frá sér en markvörður Midtjylland náði ekki að halda boltanum og Guðmundur fylgdi vel á eftir og minnkaði muninn í 2-1 og lyftist þá brúnin verulega á mörgum stuðningsmönnum Keflavíkur sem hefðu þó mátt vera fleiri á vellinum í kvöld. Pumasveitin söng og trallaði allan leikinn eins og hún á að sér en það olli nokkrum vonbrigðum að ekki skyldu fleiri leggja leið sína á völlinn í kvöld á jafn sögulegan leik og raun bar vitni.

 

Á 35. mínútu dró aftur til tíðinda þegar Símun Samuelsen sendi boltann fyrir markið af vinstri kantinum. Þar kom aðvífandi Þórarinn Brynjar Kristjánsson og náði að koma illa klipptu tánöglinni á stóru tá í boltann og inn fór hann og staðan orðin jöfn, 2-2, og alger viðsnúningur í leiknum þegar hér er komið við sögu.

 

Liðin gengu svo til búningsklefa í stöðunni 2-2 og gestunum var augljóslega brugðið eftir að hafa fatast illilega flugið eftir sterka byrjun.

 

Silfurlið Midtjylland í dönsku deildinni hóf síðari hálfleik af krafti og ætluðu sér augljóslega að setja mark snemma á Keflavík en raunin varð reyndar allt önnur. Á 57. mínút fékk Guðmundur Steinarsson boltann á miðjum leikvellinum, sendi hann út á vinstri kant á Símun sem lék inn að miðjunni, fór fram hjá tveimur varnarmönnu og skaut að marki um leið og þriðji varnarmaðurinn kom í hann. Boltinn sveif í föstum og glæsilegum boga upp í hægra hornið og staðan orðin 3-2 Keflavík í vil.

 

Gestirnir reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna metin og fær varnarlína Keflavíkur stóra rós í hnappagatið fyrir að standast áhlaupið og voru þeir félagarnir Guðmundur Mete og Nicolai Jörgensen einbeittir og stjórnuðu varnarleiknum af mikilli röggsemi.

 

Mikil fagnaðarlæti brutust síðan út á Keflavíkurvelli þegar dómari leiksins flautaði til leiksloka og sást það langar leiðir að varnarmaðurinn Nicolai Jörgensen réð sér ekki af kæti enda nýbúinn að fagna sigri gegn sínu gamla félagi. Hann var í 5 ár á mála hjá Midtjylland og sýndi gömlu félögum sínum í kvöld að hugsanlega hafi það verið reginmistök að láta hann frá félaginu.

 

Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var kampakátur í leikslok, enda ærin ástæða til. „Þetta var stór sigur og þegar staðan var 2-2 í hálfleik þá var ekkert annað en bara að ganga á lagið og stefna á sigur. Við vissum að þeir myndu pressa okkur og að við þyrftum að lifa af fyrstu mínúturnar, það gekk ekki en þegar Midtjylland fór að hægja á sér komumst við inn í leikinn. Við lásum leikinn vel fyrirfram en þetta hefði mátt byrja betur í kvöld hjá okkur,“ sagði Kristján.

 

„Það var algjört lykilatriði að vinna hérna heima og svo sjáum við bara hvað við getum farið langt með þá úti. Þeir munu koma dýrvitlausir í næsta leik,“ sagði Kristján sigurreifur í leikslok.

 

Laust eftir hádegi á morgun birtum við á vf.is svo öll mörkin úr leik kvöldsins ásamt fjöldanum öllum af viðtölum við leikmenn og þjálfara. Fylgist vel með á VEF TV vf.is á morgun laust eftir hádegi.

 

VF-myndir/ Hilmar Bragi Bárðarson, [email protected]

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024