Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Algjört ævintýri í Lúxemborg
Ingunn og Sara Rún eru að stíga sín fyrstu skref með A-landsliðinu.
Föstudagur 31. maí 2013 kl. 07:36

Algjört ævintýri í Lúxemborg

Nokkur fjöldi Suðurnesjamanna hélt á Smáþjóðaleikana í Lúxemborg um síðastliðna helgi. Þeirra á meðal var hin 17 ára gamla Ingunn Embla Kristínardóttir en hún sló eftirminnilega í gegn með Keflvíkingum í körfuboltanum í vetur. Hún ásamt liðsfélga sínum Söru Rún Hinriksdóttur voru valdar í A-landsliðið í fyrsta sinn. Við heyrðum hljóðið í Ingunni þar sem hún var stödd í sólinni í Lúxemborg. „Lúxemborg er bara mjög flott, hér er mikið af trjám og veðrið er í raun mjög líkt því sem við erum vön á Íslandi. Hér í dag var þó geðveik sól og við komnar á stuttbuxurnar, en við rétt náðum að hoppa inn í íþróttahús til þess að forðast þessa svakalegu rigningu sem skall á,“ segir Ingunn sem nýtur þess að læra af reynslumeiri leikmönnum liðsins. „Hér eru nokkrir reynslumiklir leikmenn og það er gaman að fá að upplifa svona og læra af hinum stelpunum sem maður hefur aldrei spilað með. Stelpur eins og Helena Sverrisdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Petrúnella og María Ben eru allar mjög góðar og segja manni vel til,“ segir nýliðinn Ingunn. Hún segir liðsandann vera frábæran og stelpurnar hlakka til að takast á við krefjandi verkefni framundan. „þetta er algjört ævintýri! Svo verða þessir leikar haldnir á Íslandi næst þannig að þetta er bara spennandi.“

Ingunn er líka nýkomin heim frá Norðurlandamótinu í Svíþjóð þar sem U18 ára stúlkurnar frá Íslandi urðu í 2. sæti. Þar var hún valin í úrvalslið mótsins en hún leiddi mótið í stigum með tæp 18 stig. Þá var hún önnur í fráköstum með 9,3 að meðaltali og einnig önnur í stoðsendingum. Nú er spurning hvort Ingunn haldi uppteknum hætti á Smáþjóðaleikunum en hún á sannarlega framtíðina fyrir sér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024