Alfreð Finnboga: „Nettara að vera frá Grindavík“
- Landsliðsmaðurinn lítur á sig sem Grindvíking
Markahrókurinn Alfreð Finnbogason hefur heldur betur slegið í gegn í hollenska fótboltanum á þessu ári og er kappinn sjóðandi heitur um þessar mundir. Alfreð sem er uppalinn í Grindavík er í forsíðuviðtali við tímaritið Monitor þessa vikuna þar sem hann rifjar upp árin í Grindavík en þar bjó hann til níu ára aldurs.
„Ég tel mig vera Grindvíking, þar ólst ég upp og bjó til 9 ára aldurs, það er miklu nettara að vera frá Grindavík heldur en Grafarvogi. Ég á ennþá fína vini í Grindavík og finnst alltaf gott að koma þangað aftur,“ segir Alfreð m.a. í viðtalinu en hann rifjar svo upp sögu af því hvernig hann réð lögum og lofum á knattspyrnuvelli í garðinum hjá sér í Grindavík.
„Þar giltu auðvitað mínar reglur og ef menn gátu ekki fylgt þeim þá fengu þeir bara umsvifalaust rauða spjaldið, sem ég var búinn að útbúa sjálfur, og voru vinsamlegast beðnir um að fara heim. Mamma og pabbi tala ennþá um þetta. Maður var svolítið frekur og fékk sínu framgengt en það hefur mestmegnis þroskast af manni,“ hann segir þó frekjuna geta hjálpað til inn á fótboltavellinum í dag enda sé það merki um keppnisskap.
Viðtalið má lesa hér.