Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Alexander: Spilamennskan og stigin sem telja
Miðvikudagur 19. september 2012 kl. 10:19

Alexander: Spilamennskan og stigin sem telja

Alexander Magnússon, miðjumaður Grindvíkinga í Pepsi-deild karla hefur verið að glíma við meiðsli í sumar en hann sprakk út á síðasta tímabili og var þá að öðrum ólöstuðum besti leikmaður Grindvíkinga. Hann hefur því ekki leikið nema 10 leiki í sumar en eins og flestir vita urðu það örlög Grindvíkinga að falla úr Pepsi-deildinni um síðustu helgi.

„Menn eru skiljanlega þungir því það tekur óneitanlega á að falla, en það verða einhverjir að falla,“ segir Alexander en hann hefur áður fallið um deild, en þá lék hann með Njarðvíkingum í 1. deild. „Menn eru þó ekki dauðir úr öllum æðum og það er enn fíflast á æfingum eins og vanalega.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Alexander segir að tímabilið hafi vissulega verið erfitt. Bæði hafa margir mikilvægir leikmenn verið utanvallar vegna meiðsla og svo hefur lítið fallið með liðinu að hans mati. Sjálfur hefur Alexander ekki getað beitt sér að fullu vegna meiðsla á hné, en hann fór í speglun á aundirbúningstímabilinu. „Ég hef ekki náð 100% getu síðan ég fékk högg á hnéð gegn ÍBV snemma sumars (20. júní). Síðan þá hef ég ekki verið alveg góður,“ segir Alexander sem nú í sumar var færður á miðjuna en áður lék hann sem bakvörður.

„Ég er ekki með neina afsökun fyrir þessu gengi okkar en það er sárt að heyra sannleikann. En að mínu mati tel ég að meiðslin hafi sett strik í reikninginn. Þegar vanta fer 3-4 menn sem að öllu jöfnu væru að byrja inná þar fer þetta að verða ansi erfitt. Það þýðir þó ekkert að vera að leita að einhverri afsökun því þegar allt kemur til alls þá er það spilamennskan og stigin sem telja.“

En mun Alexander leika með Grindvíkingum á næsta tímabili?

„Ég er ekki farinn að hugsa svo langt. Ég er samningsbundinn Grindvíkingum út árið 2014. Eftir tímabilið verða málin rædd. Ég held að flestir vilji spila í hæsta gæðaflokki en ég er svo sem tilbúinn að skoða allt. Það er spurning hvað Grindvíkingar ætla að gera varðandi uppbyggingarmál, hvernig þeim verður háttað. Það eru margir góðir strákar þarna sem vilja líka spila á stóra sviðinu,“ segir Alexander.

Grindvíkingar fá KR-inga í heimsókn á morgun og Alexander telur að Grindvíkingar mæti í þann leik til þess að spila upp á stoltið. „Það er engin pressa á okkur og það væri flott að klára þetta með sæmd, leggja allt í þetta og lemja aðeins á KR-ingunum,“ segir Alexander að lokum og hlær.