Alexander líklega áfram hjá Grindavík
Það bendir allt til þess að Alexander Magnússon verði áfram í herbúðum Grindavíkur á næstu leiktíð þrátt fyrir talsverðan áhuga liða úr Pepsi-deildinni. Alexander er með samning við Grindavík til ársins 2014 og ætla Grindvíkingar að halda lykilmönnum í þeirri von að fara beint upp í efstu deild eftir fall úr Pepsi-deildinni í haust. Fótbolti.net greinir frá þessu.
„Það er einhver áhugi frá félögum í Pepsi-deildinni sem ég hef heyrt í gegnum Magnús Agnar umboðsmann minn. Ég er hins vegar samningsbundinn Grindavík út árið 2014 og félagið vill halda lykilmönnum sínum til að gera allt til að spila meðal þeirra bestu á nýjan leik,“ sagði Alexander við Fótbolta.net.
„Ég er sjálfur búinn að funda með stjórn Grindavíkur þar sem ég vil náttúrulega spila í Pepsi-deildinni. Ég átti mjög erfitt með að sætta mig við að spila í 1.deildinni á næsta ári en það þýðir ekkert að grenja yfir þessu lengur þar sem þetta er bara ekkert í mínum höndum.“
Zoran Daníel Ljubicic, þjálfari Keflavíkur, sagði í viðtali við Víkurfréttir fyrir skömmu að hann hefði mikinn áhuga á því að fá Alexander til liðs við Keflavík.