Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Aldrei spurning!
Fimmtudagur 24. apríl 2008 kl. 23:33

Aldrei spurning!

Yfirburðir Keflvíkinga voru fullkomnaðir í kvöld þegar þeir urðu Íslandsmeistarar í níunda sinn. Liðið skellti Snæfellingum örugglega 98-74 í þriðja úrslitaleik liðanna þar sem mögnuð stemmning var á pöllunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Trommusveitin veifaði strákústi fögrum í stúkunni enda var Snæfellingum sópað 3-0 inn í sumarið. Gunnar Einarsson var valinn besti maður úrslitakeppninnar og er vel að þeirri nafnbót kominn. Gunnar gerði 20 stig fyrir Keflavík í kvöld og Tommy Johnson bætti við 24. Sigurður Gunnar Þorsteinsson betur þekktur sem Ísafjarðartröllið vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil en hann er á sínu öðru ári með Keflavík.

„Þetta er fyrsti af mörgum, það er klárt, ég kom til Keflavíkur til þess að vinna titla og nú er sá fyrsti kominn. Þessi tilfinning er æðisleg og ég get varla lýst henni því ég er búinn að bíða svo lengi eftir þessu. Nú er bara stefnan sett á landsliðssæti og toppform,“ sagði Ísfirðingurinn Sigurður Þorsteinsson kampakátur í leikslok í samtali við Víkurfréttir.

Leikur kvöldsins fór vel af stað og áhorfendur voru vel með á nótunum. Magnús Þór Gunnarsson kom sterkur af bekknum og lét strax að sér kveða með þriggja stiga körfum og gerði hann síðustu körfu fyrsta leikhluta og kom Keflavík í 23-21.

Magnús bætti við tveimur góðum þristum í upphafi annars leikhluta og staðan því orðin 29-21 Keflvíkingum í vil. Vörn heimamanna var fyrnasterk og rétt eins og í fyrstu leikjunum áttu Snæfellingar í mesta basli með að komast upp að körfunni.

Hólmarar voru þó ekki af baki dottnir og náðu að halda í við Keflvíkinga en staðan í leikhléi var 42-36 fyrir Keflavík. Stóru leikmenn Keflavíkur voru komnir á hættusvæði hvað villurnar varðar en frábær síðari hálfleikur kom í veg fyrir að villuvandræði yrðu eitthvað að flækjast í vegi þess sem koma skyldi.


Það var aldrei spurning í síðari hálfleik hvort liðið færi með sigur af hólmi og Sigurður Gunnar Þorsteinsson fór á kostum í teignum þar sem hver Snæfellssóknin var brotin á bak aftur. Á hinum endanum áttu Snæfellingar engin svör. Tommy Johnson, Gunnar Einarsson og Magnús Þór Gunnarsson fóru fyrir stigaskorinu í kvöld. Bobby Walker kom Keflavík í 58-47 með þriggja stiga körfu þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og frá þeim tímapunkti litu Keflvíkingar aldrei til baka.


Þriðja leikhluta lauk í stöðunni 69-54 fyrir Keflavík og að endingu lauk leik 98-74. Snæfellingar sáu aldrei til sólar í einvíginu og lykill Keflavíkur að Íslandsmeistaratitlinum var varnarleikurinn og sönnuðu þeir hið fornkveðna: „Sóknin vinnur leiki en vörnin vinnur titla.“

Fyrir þessa leiktíð var Keflvíkingum spáð um miðja deild en þeir hafa heldur betur sannað sitt mál. Þeir urðu fyrsta lið landsins til þess að vinna einvígi í úrslitakeppninni eftir að hafa lent 2-0 undir gegn ÍR. Liðið vann sex leiki í röð og fögnuðu þeir Íslandsmeistaratitlinum ákaft og þó kannski fáir meir en Gunnar Einarsson. Gunnar hrökk í gang eftir annan leikinn gegn ÍR og síðustu sex leiki fór maðurinn hamförum. Barðist af miklum krafti í vörninni og fann sig vel í sóknarleiknum. Frábært ár að baki hjá Keflavík sem sópuðu Snæfellingum út í sumarið og kvittuðu þannig fyrir úrslitakeppnina í fyrra en þá voru það Snæfellingar sem sópuðu Keflavík inn í sumarið í 8-liða úrslitum.


Keflavík jafnaði met ÍR í kvöld en það er að bæði karla- og kvennalið félagsins verði Íslandsmeistarar á sama ári og nú hefur það gerst sex sinnum hjá Keflavík. Liðsheildin var sterk en allir leikmenn liðsins tóku sig saman í andlitinu á lokasprettinum og léku grimma vörn.

Til hamingju Keflavík!

Tölfræði leiksins