Aldrei gengið betur hjá Þrótturum
Umgjörðin til fyrirmyndar segir Þorsteinn þjálfari
Þróttarar í Vogum eru komnir ansi nærri 3. deildinni í knattspyrnu eftir frækinn sigur á KFG í tveggja leikja rimmu. Þeir gætu með sigri gegn Álftanesi komið sér upp um deild, en aldrei hefur félaginu gengið eins vel og einmitt núna.
Þorsteinn Gunnarsson er þjálfari liðsins en hann er að ljúka sínu öðru tímabili sem aðalþjálfari. Hann segir markmiðið klárlega vera að komast upp í næstu deild þar sem hugsanlega gætu komið saman fjögur lið af Suðurnesjum. Nú leika Víðismenn í deildinni og útlit er fyrir að Reynismenn og Njarðvíkingar falli niður úr annari deild í þá þriðju. Þorsteinn segist vona að svo verði ekki og óskar nágrönnum sínum alls hins besta í fallbaráttunni.
Hann er fyrst og fremst með hugan við að koma Þrótturum í stand fyrir komandi tvær viðureignir gegn Álftnesinum, en leikið er heima og heiman. Lið Þróttar verður fyrir mikilli blóðtöku en þrír lykilleikmenn, Einar Valur Árnason, Bogi Rafn Einarsson og Hinrik Hinriksson, munu ekki taka þátt í þessari baráttu. Þorsteinn segir að árangur sem þessi hafi vissulega mikla þýðingu fyrir bæjarlífið í Vogum og umgjörðin í kringum félagið sé frábær. „Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og hef smitast af ástríðunni og vinnuseminni hérna,“ segir Þorsteinn. Fyrri leikur liðanna er á laugardag í Garðabæ en síðari leikurinn á miðvikudaginn n.k. á heimavelli Þróttara.