Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ákvörðun um kæru tekin á morgun
Þriðjudagur 2. janúar 2007 kl. 13:06

Ákvörðun um kæru tekin á morgun

Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Steven Thomas gæti átt von á kæru á morgun eftir atvik sem átti sér stað í leik Grindavíkur og KR í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í síðustu viku. KR hafði sigur í leiknum, 78-89.

 

Atvikið átti sér stað er KR hafði tekið frákast og voru á leið í sókn. Fannar Ólafsson, miðherji KR, hélt þá til sóknar og er hann var kominn að þriggja stiga línu Grindavíkur gaf Thomas honum fast olnbogaskot með þeim afleiðingum að Fannar féll í parketið. Dómarar leiksins sáu ekki hvað gerðist en á heimasíðu KR, www.kr.is/karfa er að finna myndbrot sem sýnir atvikið greinilega.

 

Böðvar Guðjónsson, formaður Körfuknattleiksdeildar KR, sagði í samtali við Víkurfréttir að Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, myndi fara vel yfir spóluna frá leiknum í kvöld og að á morgun yrði tekin ákvörðun um hvort kært yrði í málinu. „Thomas var víðsfjarri boltanum og svona lagað má ekki sjást í íþróttum. Við höfum þrjá virka daga til þess að skila inn kæru til KKÍ og því ákveðum við á morgun hvort lögð verði inn kæra eða ekki,“ sagði Böðvar.

 

Á seinustu leiktíð var AJ Moye, þá leikmaður Keflavíkur, dæmdur í þriggja leikja bann er hann gaf Jeb Ivey einn á lúðurinn með föstu olnbogaskoti í desemberslag Njarðvíkur og Keflavíkur í Ljónagryfjunni. Ef KR kærir atvikið gæti Thomas átt yfir höfði sér nokkurt leikbann.

 

Atvikið er hægt að skoða hér til hliðar á Vef TV Víkurfrétta

 

VF-mynd/ Jón Björn Ólafsson - Thomas í leik gegn Njarðvík fyrr á tímabilinu

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024