Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Áhugi, metnaður og staðfesta
Guðbjörg og Guðmundur í Ljónagryfjunni þar sem spænska liðið Paterna verður við æfingar meðan á dvöl þeirra á Íslandi stendur. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 3. desember 2021 kl. 08:41

Áhugi, metnaður og staðfesta

Njarðvíkingurinn Rannveig Guðmundsdóttir fór til Spánar síðasta sumar þar sem hún tók þátt í þriggja vikna æfingabúðum í körfuknattleik. Í framhaldinu var henni boðinn skólastyrkur hjá körfuknattleiksfélaginu Paterna og nú hefur samstarfi verið komið á milli spænska félagsins og körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur. Það er ótrúlegt hvað einbeittur áhugi ungrar körfuboltakonu úr Njarðvík hefur undið upp á sig á skömmum tíma. Víkurfréttir ræddu við foreldra Rannveigar, þau Guðbjörgu Björnsdóttur og Guðmund Helga Albertsson, sem sitja í unglingaráði körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.

Guðbjörg og Guðmundur segja að sér þyki það mjög spennandi sem dóttir þeirra hefur tekið sér fyrir hendur en hún hélt til Spánar þar sem henni fannst hún þurfa meiri áskorun en henni stóð til boða hjá Njarðvík.

„Það sem við erum að sjá í dag er að þessum stelpum vantar verkefni,“ segir Guðmundur. „Það eru þrír árgangar í stúlknaflokknum; sextán, sautján og átján ára, og þær sem eru að spila í meistaraflokknum eru ósjálfrátt að fá meiri spilatíma en þær sem eru yngri þannig að okkur fannst að þessum flokki vantaði verkefni til að halda þeim lengur í íþróttinni.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðbjörg segir að Rannveig hafi tekið þátt í æfingabúðum á Spáni í júní og hún fylgdi dóttur sinni út. „Rannveig fór í tryouts í júní og við vorum í þrjár vikur hjá Valencia Basket þar sem hún gekk í gegnum stóran pakka. Hún var að æfa tvisvar til þrisvar á dag og í framhaldinu fékk hún boð um skólastyrk hjá ­Paterna sem er venslafélag Valencia Basket. Hún þáði boðið og er búin að vera þarna úti síðan í haust.“ 

Guðmundur bætir við að það hafi komið upp tækifæri þegar Rannveig fór út; „... og við náðum að byggja upp tengingu milli félaganna. Við upplifðum að þeir vildu gera eitthvað fyrir sinn stúlknaflokk og við stukkum á tækifærið. Úr varð að Paterna er að koma til okkar núna 3. desember og ætla að vera hjá okkur í viku.“ 

Það er myndarlegur hópur sem er væntanlegur til æfinga hér á Íslandi í byrjun desember. Paterna sendir 37 manns, fimmtán leikmenn, fjóra þjálfara og með hópnum koma átján aðstandendur. „Þetta er nokkur stór hópur, auðvitað extra mikill áhugi þar sem þetta er í fyrsta sinn sem þau koma hingað. Foreldrar líka áhugasamir að koma og upplifa Ísland,“ segir Guðmundur en allar stúlkurnar í hópnum eru á aldrinum sextán og sautján ára. 

Stúlknaflokkur Njarðvíkur, Rannveig er hægra megin við miðju í efri röð.

Samstarf sem er komið til að vera

„Við höfum lagt ríka áherslu á að þetta er samstarf sem er komið til að vera, ekki bara núna og á næsta ári heldur áframhaldandi verkefni. Ástæðan fyrir því að við völdum stúlknaflokkinn í þetta verkefni er af því að þetta er aldurinn sem þær eru mikið að bíða, þetta eru þrjú ár og hálfgerð endastöð þeirra sem fara ekki í meistaraflokkinn. Við vildum gera eitthvað bitastætt til að halda þeim lengur í íþróttinni og veita þeim tækifæri til að fá jákvæða upplifun af því að ljúka sínum körfuboltaferli – og fyrir þær sem vilja ná lengra þá opnar þetta hugsanlega tækifæri fyrir þær til að komast á skólastyrk úti á Spáni.“ 

Hjá Paterna eru þjálfarar sem eru í fullu starfi við þjálfun og félagið er í góðum tengslum við Valencia sem er að verða einn besti klúbbur í Evrópu og spænska boltanum. Þar eru líka mörg tækifæri fyrir þessa krakka ef þau standa sig vel og sýna áhuga. 

„Kvennalið Valencia var að vinna SuperCup um daginn,“ segir Guðbjörg. „Þetta er sterkasta liðið í Evrópu um þessar mundir og öll aðstaða hjá liðinu er langt umfram það sem við eigum að venjast hér á Íslandi.“

Guðmundur segir að það sé einnig verið að horfa til þjálfara Njarðvíkur, að bæta þeirra hæfni. „Þetta gerist í skrefum. Að þetta opni tækifæri fyrir þjálfarana til að þroskast og ná sér í aukna reynslu. Það hefur komið til tals að það verði einnig samvinna á þeim grundvelli milli félaganna en þetta er að þróast og að tengja stúlknaflokkana er fyrsta skrefið.“ 

Er meira brottfall á stelpum en strákum á þessum aldri?

„Já, okkur finnst það,“ segja þau í kór og Guðbjörg heldur áfram: „FIBA er með ákall til allra samstarfsaðila um að halda stelpum í körfubolta, þetta smellpassar innan þess ramma. Það virðist vera gegnumgangandi allsstaðar að mesta brottfallið hjá stelpum verður á þessum aldri.“ 

„Það er samt þannig að það er aukning í körfubolta á Íslandi,“ segir Guðmundur. „Það virðast flest félög vera að bæta við sig iðkendum en við erum ekki að verða vör við það hjá Njarðvík, þetta er svona „Status Quo“. Ég vil meina að þetta sé tækifæri fyrir okkur í unglingaráði að bæta því það virðist sem þeir sem byrja að æfa körfubolta hafi tengingu í sama hóp og hefur verið að æfa hjá félaginu áður, þetta eru afkomendur fyrrum leikmanna o.þ.h. Sem dæmi erum við ekki að sjá marga af þeim sem hafa verið að flytja í Innri-Njarðvík koma í körfuna, þeir fara frekar í fótboltann sem er að taka mikið pláss. 

Við sjáum þetta verkefni líka fyrir okkur til að trekkja að, við þurfum að hafa einhverja svona gulrót. Næsta skref verður að taka strákana inn í þetta, við þurfum að gera báðum kynjum jafn hátt undir höfði en við töldum að stelpurnar væru meira aðkallandi verkefni, til að byrja með.“ 

Rannveig klædd búningi Paterna klár í slaginn á leikdegi.

Þetta vil ég gera!

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að karlaíþróttir fá jafnan meiri athygli en kvennaíþróttir. Þetta á við umfjöllun í fjölmiðlum og umgjörð innan félaganna sjálfra. Þó svo að farið sé að líta meira til kvennaíþrótta en áður var gert er ennþá langt í land að jafnræði verði á milli kynja varðandi aðstöðumál og annað. 

Guðmundur og Guðbjörg segja þannig frá þegar Rannveig fékk þessa hugmynd fyrst, að fara til Spánar: „Hún horfði á eftir Róberti Birmingham vera að fara út og sagði bara: „OK, þetta vil ég gera!“ en þegar hún fór að tala um þetta við fólk sögðu flestir það sama – að það héldi að ekkert svona væri í boði fyrir stelpur. Þetta var það fyrsta sem hún fékk að heyra en Rannveig var ekki á því að gefast upp og spólaði sig áfram í þessu. 

Það eru tvö til þrjú ár síðan hún tók þá ákvörðun að þetta væri það sem hún vildi. Hún er búin að undirbúa sig vel, eins og að fara í hugarþjálfun því stór hluti af því að fara ein út og standa á eigin fótum er andlega hliðin. Þú þarft að vera tilbúin andlega, kollurinn þarf að vera í lagi og þótt Rannveig sé ung hefur hún unnið mikið í þeim málum, enda er hún að blómstra og njóta sín í dag. Það er dásamlegt að fylgjast með henni,“ segja hjónin stolt af stelpunni sinni.

Staða námsins hefur reynst erfiðast

Það sem hefur reynst Rannveigu erfiðast í þessu ferli öllu er hvar hún stendur í náminu en þrátt fyrir að hafa verið afburðarnemandi heima á Íslandi er íslenska menntakerfið langt á eftir því spænska.

 „Námið þarna úti er á allt öðrum stað en hér heima, spænsku krakkarnir eru komnir lengra á veg í sínu námi en hér á Íslandi. Þannig að ofan á það að læra tungumálið hefur það reynst Rannveigu svolítið erfitt – jafnvel þótt hún hafi sótt aukakúrsa í FS með tíunda bekknum þá er hún talsvert á eftir í námsferlinu,“ benda foreldrar hennar á.

 „Hefur alltaf staðið sig vel í námi hérna heima og það reynir verulega á samvisku hennar að finnast hún ekki vera að standa sig í náminu úti, er bara meðalskussi. Það er ekki alveg hennar stíll,“ segir Guðmundur og bætir við: „Hún þarf bara að anda sig í gegnum þetta, fyrsta árið verður erfitt en hún er ótrúlega fókuseruð á að láta þetta ganga.“

Hvatning fyrir aðrar stelpur ... og stráka

Það er ekki sjálfgefið fyrir hæfileikaríka krakka að fara út í nám með íþróttir að vopni. Því fylgir mikil vinna, mikill agi og einstakt hugarfar – það er ekki æfingin sem skapar meistarann því eins og einhver sagði: „Aukaæfingin skapar meistarann.“ 

„Þau þurfa í fyrsta lagi að hafa áhugann,“ segja Guðbjörg og Guðmundur. „Áhuga og metnað. Svo þurfa þau að finna þetta hjá sjálfum sér, það eina sem við foreldrar þurfum að gera er að styðja við bakið á þeim.“

Guðmundur segir að Covid hafi haft mikil áhrif á æfingar en Rannveig hafi verið staðföst: „Hún gerði fullt auka, þegar hún var búin á æfingu þá var hún ekki tilbúin að hætta, hún vildi gera meira og það endaði þannig að við mokuðum snjónum af körfuboltavellinum svo hún gæti tekið aukaæfingu – eftir inniæfingu æfði hún úti, skipti engu máli hvernig viðraði. Núna keppir hún með junior- og senior-liðum Paterna og stundar nám við góðan framhaldsskóla.“

Þau hjónin eru augljóslega ánægð fyrir hönd dóttur sinnar sem er að fá að elta drauminn og hver veit hvert það mun leiða hana í framtíðinni?

Rannveig  ásamt liðsfélögum sínum í Paterna.

Tengdar fréttir