Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 13. apríl 2001 kl. 12:57

Áhugi á ólympískum hnefaleikum mikill

Fyrir stuttu var opnaður hnefaleikaklúbbur á Hafnargötu í Keflavík sem ber nafnið Boxing Athletic Gym (BAG). Eigandi klúbbsins er þjálfarinn Guðjón Vilhelm en hann hefur rekið samnefndan klúbb í Hafnarfirði um tíma. Klúbburinn hefur fengið styrk frá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjanesbæjar og segir Guðjón það vera skref í rétta átt.

Bannið er tímaskekkja
Guðjón hefur stundað hnefaleika í tíu ár en segir áhugann á íþróttinni hafa aukist á undanförnum árum. Ljóst er að áhugi Suðurnesjamanna er gríðarlegur því við opnun klúbbsins komu á fjórðahundrað manns og nú þegar hafa um 60 manns skráð sig. „Suðurnes hafa verið einskonar vagga boxins á Íslandi, hér eru margir sem hafa stundað hnefaleika í mörg ár. Að mínu mati er bann við ólympískum hnefaleikum tímaskekkja því innan við 1% keppna enda með rothöggi og á þessu eina og hálfa ári sem ég hef rekið BAG í Hafnarfirði hefur ekki einu sinni þurft að kalla til læknis“ segir Guðjón. Hann bætir við að Alþjóða Ólympíusambandið hafi tekið ákvörðun um að leyfa keppni í ólympískum hnefaleikum kvenna á Ólympíleikunum. Heilbrigðisnefnd ÍSÍ hefur lagt blessun sína yfir frumvarp um lögleiðingu ólympískra hnefaleika á Íslandi sem liggur fyrir Alþingi.
Dæmi annarsstaðar að úr heiminum sýna að ólympískir hnefaleikar hafi bjargað mörgum af götunni og kostnaðurinn við að reka boxsal sé minni en kostnaður bæjarfélagsins af einum óregluunglingi. Hann segist þó hafa búist við meiri mótstöðu og segir að það stafi frekar af því að fólk rugli saman atvinnuhnefaleikum og ólympískum hnefaleikum.

Söguleg ferð
Í vor fór Guðjón ásamt 13 öðrum boxurum til Bandaríkjanna þar sem þeim gafst kostur á að keppa við aðra boxara. „Strákarnir stóðu sig mjög vel, bæði í keppni og framkomu. Ferðin var í alla staði vel heppnuð og við vöktu mikla athygli því þetta var fyrsta íslenska boxliðið“ segir Guðjón og bendir á að Skjár einn sýnir þætti um ferðina á föstudagskvöldum. „Ég hefði þó viljað sjá fleiri Suðurnesjamenn í ferðinni en Skúli Vilbergsson var sá eini sem fór héðan“, bætir hann við. Þeir sem koma í klúbbinn eru á öllum aldri, allt frá 10-53 ára, bæði konur og karlar enda er boðið upp á tíma sem henta öllum. Reglur í klúbbnum eru mjög strangar og fer enginn í hring nema hann sé kominn með undirstöðuatriðin á hreint.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024