Áhorfendur taka titlunum sem sjálfsögðum hlut
Magnús Gunnarsson hefur farið í Laugardalshöll í fjögur skipti og er hann hvað reyndastur í liði Keflvíkinga þegar kemur að því að spila leiki á stóra sviðinu. Keflvíkingar hafa sigrað Tindastól tvívegis nokkuð örugglega á tímabilinu en Magnús segir að leikurinn á laugardaginn muni ekki ráðast af því eða á hæfileikunum einum saman. „Þetta er bara 50/50 leikur og hann mun ekki ráðast af getu eða hæfileikum. Það verður bara krafturinn og ákveðnin sem gildir í svona leik,“ segir Magnús sem hefur farið fjórum sinnum í Höllina og tvisvar hefur hann lyft bikarnum á loft.
Hvernig líst þér á lið Tindastóls? „Það er bara gaman að nýtt lið sé að komast í Höllina og þeir eru greinilega með hörku lið fyrst þeir eru komnir í úrslit. Það verður gaman að berjast við þá.“
„Þetta er skemmtilegasti leikur sem hægt er að komast í og tilfinningin sem ríkir í svona leikjum er bara mögnuð. Það eru margir, og þá sérstaklega áhorfendur sem taka því sem sjálfsögðum hlut að komast í bikarúrslitin en ef maður hugsar aðeins út í þetta þá er kannski 15% leikmanna sem eru að stunda körfubolta sem kemst í svona leik á ferlinum. Þannig að maður á að nýta tækifærið sem best og njóta augnabliksins,“ segir fyrirliði Keflvíkinga.
Biðin hefur verið löng hjá Keflvíkingum en Magnús segist búinn að vera að bíða lengur en þessi 6 ár sem eru liðin frá síðustu heimsókn í Laugardalinn. „Ég er eiginlega búinn að bíða síðan 2005, en ég var svo lélegur í þeim leik. Þannig að ég bíð spenntur og er fyrir löngu farinn að hugsa um þennan leik.“
Magnús er einn af fáum reynsluboltum í Keflavíkurliðinu og hann mun miðla af reynslu sinni til ungu leikmannanna í liðinu. „Þeir eiga að njóta augnabliksins. Þetta er bara körfubolti eins og hann er spilaður alls staðar í heiminum. Það er í lagi að vera smá stressaður, en ekki um of,“ segir Magnús og bætir því við að hann geti nú kennt ungu strákunum eitt og annað. Hann segir útlendingana ekki alveg gera sér grein fyrir því hvað þeir séu að fara út í en vikan fram að leik er notuð í það að undirbúa þá og ungu strákana undir stóra leikinn.
„Ég ætla nú bara rétt að vona að keflvískir áhorfendur láti sjá sig á laugardaginn. Það eru liðin 6 ár frá því að við vorum í Höllinni og margir hafa tekið stóru titlunum sem sjálfsögðum hlut, en það er bara ekki þannig og við verðum að nýta þetta tækifæri því það gefst ekki á hverju ári,“ segir Magnús en hann hefur fregnir af því að fólk muni fjölmenna á leikinn frá Sauðárkróki og að bænum verði hreinlega lokað á meðan leikurinn fer fram. „Fólk getur horft á leikinn í endursýningu en ekki horfa á hann í sjónvarpinu,“ sagði skyttan að lokum.