Áherslubreytingar hjá Golfklúbbi Suðurnesja
– formaðurinn útskýrir málin í ítarlegum pistli
Áherslubreytingar hafa verið gerðar á starfsmannahaldinu hjá Golfklúbbi Suðurnesja – og tvær stöður sameinaðar í eina. Jóhann Páll Kristbjörnsson formaður GS skrifaði ítarlegan pistil um stöðu mála í Leirunni og er pistill hans hér fyrir neðan.
Ágætu GSingar.
Á síðasta aðalfundi voru ný lög Golfklúbbs Suðurnesja samþykkt. Í kjölfarið fór stjórn félagsins í vinnu til að uppfylla þær kröfur sem lög félagsins gera ráð fyrir. Endurskipulagning starfsmannahalds var hluti þeirra aðgerða sem ráðast þurfti í, en starfsfólk Golfklúbbs Suðurnesja hafði ekki undirritaða ráðningarsamninga né voru til skriflegar starfslýsingar á þeirra verksviði að undanskildum íþróttastjórum félagsins.
Fyrir síðustu áramót var því starfsmönnum sagt upp og þeim boðnir ráðningarsamningar og starfslýsing látin fylgja. Áherslubreytingar voru gerðar á starfsmannahaldinu, t.a.m. var ákveðið að sameina framkvæmdastjóra- og vallarstjórastöðuna í eitt starf og í stað vallarstjóra væri umsjónarmaður golfvallar ráðinn, en hans yfirmaður er þá framkvæmda- og vallarstjóri. Þessar breytingar eru að mati stjórnar til hagræðingar fyrir Golfklúbb Suðurnesja og liður í að lækka launakostnað félagsins sem hefur verið óþarflega mikill.Þegar þessi nýju lög voru samþykkt í desember voru fastráðnir starfsmenn klúbbsins þrír; framkvæmdastjóri, íþróttastjóri og starfsmaður golfvallar.
Íþróttastjóri GS sagði starfi sínu lausu fljótlega eftir aðalfund þegar honum bauðst yfirþjálfarastaða hjá Golfklúbbi Reykjavíkur en öðrum starfsmönnum var sagt upp störfum og þeim boðnir nýir samningar eins og fyrr segir. Í starf íþróttastjóra var Karen Sævarsdóttir ráðin í byrjun árs og gerður við hana samningur þar sem aðkeyptum tímum var fækkað töluvert frá því sem áður var. Gunnari Þór Jóhannssyni var boðin staða framkvæmda- og vallarstjóra og hefur hann þegið þann samning sem í boði var, Gunnar tekur við starfinu frá og með 1. apríl 2015. Laun Gunnars breytast ekki þó verksvið hans hafi orðið talsvert umfangsmeira við þessar breytingar. Starfsmaður golfvallar afþakkaði þann samning sem honum var boðinn sem umsjónarmaður golfvallar og hefur látið af störfum hjá Golfklúbbi Suðurnesja. Starf umsjónarmanns golfvallar er því laust til umsóknar og verður tekið á móti umsóknum til 10. þessa mánaðar. Í kjölfarið verður því nýr umsjónarmaður golfvallar ráðinn og kynntur félagsmönnum.
Stjórn GS þakkar fráfarandi starfsmönnum framlag þeirra til Golfklúbbs Suðurnesja og óskar þeim velfarnaðar í því sem þeir taka sér fyrir hendur.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður