Ágúst í gegnum fyrstu umferð á HM
– keppti í dag á Heimsmeistaramóti ungmenna í taekwondo í Suður-Kóreu.
Ágúst Kristinn Eðvarðsson, taekwondo kappi, keppti í dag á Heimsmeistaramóti ungmenna í taekwondo í Suður-Kóreu. Ágúst er í toppformi en fyrir rúmum 6 vikum þá vann hann til bronsverðlauna á Evrópumótinu.
Í flokkinum hans voru 30 bestu keppendur heims sem höfðu unnið sér inn þátttökurétt frá mörgum af sterkustu þjóðum allra heimsálfa. Í fyrsta bardaga þá mætti Ágúst keppanda frá Frakklandi. Frakkland er ein besta taekwondo þjóð heims og Evrópu og unnu m.a. til gullverðlauna í einum flokkinum í dag.
Bardaginn var mjög jafn í byrjun en yfirleitt var Frakkinn með yfirhöndina. Ágúst náði að jafna og að lokum fann hann góða lausn á sóknum Frakkans og komst vel yfir í síðustu lotunni. Bardaginn endaði 27 -18 Ágústi í vil.
Í næsta bardaga keppti Ágúst við sterkan keppanda frá Thailandi. Thailand er sömuleiðis mjög sterk þjóð og náði tvennum gullverðlaunum sama dag.
Ágúst byrjaði vel og bardaginn var mjög jafn eftir fyrstu lotu. Þá byrjaði Thailendingurinn að koma inn lúmskum stigum á Ágúst og stjórnaði fjarlægðinni vel. Bardaginn fór 3-15 fyrir Thailandi og Ágúst hafnaði í 9-16 sæti.
Ágúst er því einn af fáum Íslendingum sem hafa komist í gegnum fyrstu umferð á heimsmeistaramóti í taekwondo bardaga og annar úr Keflavík, en árið 2012 komst Kristmundur Gíslason einnig í gegnum fyrstu umferð.