Ágúst fyrstur í verðlaunasæti á Evrópumóti í taekwondo
Íslendingurinn hafðu betur í hita leiksins.
„Þetta var einn stærsti dagur sem ég hef upplifað sem þjálfari,“ segir Helgi Rafn Guðmundsson, en Ágúst Kristinn Eðvarðsson, keppandi taekwondo deildar Keflavíkur, varð á dögunum fyrsti Íslendingurinn til að komast í verðlaunasæti á Evrópumóti í taekwondo bardaga. Helgi Rafn bætir við að margir geri sér ekki grein fyrir hversu sterk svona mót eru. „Þarna eru Ólympíufarar framtíðarinnar sem margir hverjir æfa nú þegar eins og atvinnumenn. Ágúst sýndi okkur að maður fær það sem maður vinnur fyrir og að það skiptir máli að vera í sterkum hóp sem hjálpar manni.“
„Einn besti bardagi sem ég hef séð“
Mikill hiti er á þessum tíma árs í Frakklandi og Helgi Rafn segir hann hafa verið kæfandi. „Ágúst var í sérflokki, stjórnaði bardögum og pressu frá byrjun. Á milli viðureigna var Ágúst settur í vökvun, kælingu og skuggann í nærliggjandi bílakjallara aftur til að reyna að halda smá orku. Frammistaða hans á mótinu var ótrúleg. Bardaginn við Spánverjann var t.a.m. einn besti bardagi tæknilega og leikfræðilega sem ég hef séð,“ segir stoltur þjálfarinn að lokum.