Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 7. nóvember 2002 kl. 12:26

Ágúst Dearborn kærður til aganefndar

Njarðvíkingurinn Ágúst Dearborn hefur verið kærður til aganefndar KKÍ vegna atviks sem átti sér stað í leik Njarðvíkur og Hauka í Kjörísbikarkeppnininni í körfu á þriðjudag. Ágúst braut á Ingvari Guðjónssyni leikmanni Hauka í leiknum með þeim afleiðingum að Ingvar datt. Ingvar henti boltanum í kjölfarið í Ágúst og við það reiddist hann og sparkaði í bakið á Ingvari af öllu afli. Þessi hegðun Ágústar er með öllu óviðeigandi og á ekki að sjást á íþróttavelli þó svo að Ingvar hafi greinilega hent boltanum viljandi í hann.Rögnvaldur Hreiðarsson, annar dómari leiksins, rak Ágúst strax útaf leikvellinum og kom hann ekki meira við sögu. Rögnvaldur sendi síðan inn kæru til aganefndar vegna þessa og verður málið tekið fyrir á vikulegum fundi nefndarinnar sem verður á þriðjudaginn.

Búast má við því að hart verði tekið á þessu máli og eru þeir sem til þekkja farnir að ræða um allt að 12 leikja bann.

Friðrik Ragnarsson þjálfari Njarðvíkinga sagði í viðtali á Sportinu á Sýn í gærkveldi að þessi hegðun Ágústar hefði verið slæm og að á þessu yrði tekið innan félagsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024