Ágóðinn rann í Minningarsjóð Ölla
Keflavík er komið í úrslit í körfunni og það er vert að minnast þess að fyrir leikinn sem Keflvíkingar komust í undanúrslitin [Keflavík - Tindastóll (87:83) þann 22. maí] hét stjórn körfuknattleiksdeildarinnar að láta ágóða af leiknum renna í Minningarsjóð Ölla.
Í tilkynningu frá stjórninni sagði m.a.: „Örlygur Aron Sturluson hefði orðið 40 ára í dag en Minningarsjóður Ölla var stofnaður til minningar um körfuknattleiksmanninn Örlyg Aron Sturluson sem var eitt mesta efni í sögu íslensks körfubolta. Minningarsjóður Ölla styrkir börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónamanna. Börn í Keflavík hafa notið góðs af styrkjum úr Minningarsjóð Ölla og fyrir það erum við afar þakklát og viljum þakka fyrir!“
Minningarsjóður Ölla þakkar Keflavíkurliðinu innilega fyrir á Facebook-síðu sinni og óskar þeim velgengis á lokasprettinum.
Myndin var tekin þegar Hörður Axel, fyrirliði Keflvíkinga, og Gunnlaug, gjaldkeri stjórnar, afhentu Berglindi Rún, sendiherra sjóðsins og frænku Ölla, framlagið. Hún tók stolt við styrknum fyrir hönd sjóðsins en hún æfir einmitt körfubolta með Keflavík og veit að það er mikilvægt fyrir öll börn að hafa tækifæri til að njóta sín í íþróttum og að sjóðurinn kemur framlaginu í góðar þarfir.