Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Aftur tapa Keflvíkingar á heimavelli
Elías Ómarsson skoraði ótrúlegt mark í leiknum.
Sunnudagur 14. júlí 2013 kl. 18:38

Aftur tapa Keflvíkingar á heimavelli

Keflvíkingar sitja nú í 9. sæti Pepsi deildar karla í knattspyrnu eftir 1-2 tap gegn Breiðablik á Nettóvellinum í Keflavík. Keflvíkingar voru ívið sprækari í frekar tíðindalitlum fyrri hálfleik en fátt var um færi og leikurinn frekar rólegur. Byrjunarlið heimamanna var í yngri kantinum en bæði Elías Ómarsson 18 ára framherji og Bergsveinn Magnússon 19 ára markvörður þreyttu frumraun sína í byrjunarliði í efstu deild. Þeir áttu báðir skínandi góðan leik og þá lét Elías sérstaklega að sér kveða. Á 50. mínútu skoraði Elías sannkallað draumamark en hann snéri á varnarmann Blika og lét vaða á markið af löngu færi. Boltinn sveif yfir landsliðsmarkvörðinn Gunnleif Gunnleifsson og hafnaði í samskeytunum. Hreint magnað mark.

Eftir markið virtust Keflvíkingar með leikinn í höndum sér en Blikar höfðu ekki verið að leika vel. Gestirnir virtust þó hressast eftir mark Elíasar og þeir jöfnuðu metin stundarfjórðungi síðar. Það var svo á 77. mínútu sem reiðarslagið kom en þá skoraði Andri Yeoman fyrir Blika. Það reyndist sigurmarkið en Keflvíkingar töldu að brotið hefði verið á Bergsveini markverði og lýsti Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga yfir óánægju með ákvörðun dómari í samtali við Víkurfréttir. Kristján var nokkuð sáttur við leik sinna manna en honum fannst Keflvíkingar eiga meira skilið úr leiknum. Keflvíkingar eru með aðeins 7 stig eftir 10 leiki en framundan eru leikir gegn toppliðunum KR og FH.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Elías hleður í skotið sem endaði með draumamarkinu.