Afslappaðir Keflvíkingar unnu Víkinga
Sjöunda sætið staðreynd
Keflvíkingar unnu 2-0 sigur á Víkingum í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu sem fram fór í dag. Það voru þeir Elías Már Ómarsson og Hörður Sveinsson sem skoruðu mörk Keflvíkinga í leiknum. Með sigrinum enduðu Keflvíkingar í sjöunda sæti deildarinnar með 28 stig. Mörk heimamanna komu í fyrri hálfleik, en í þeim seinni vörðust þeir vel gegn hungruðum Víkingum sem eltust við Evrópusæti. Þrátt fyrir úrslitin tókst Víkingum að tryggja sér sæti í Evrópu.
Elías hefur heyrt af áhuga erlendra liða
Elías Már Ómarsson segir að liðið hafi verið afslappað enda léttir að hafa tryggt sætið í deildinni í síðasta leik. Hann var nálægt því að skora tvö mörk í leiknum en ákvað að gefa Herði Sveinssyni annað markið. „Hann er að berjast um gullskóinn. Ég sagði dómaranum að skrá markið á Hödda. Hann náði að pota honum inn að lokum,“ segir Elías og brosir. Framherjinn ungi segir að hann hafi náð sínum persónulegum markmiðum í sumar að mestu leyti, en hann ætlaði sér að ná að tryggja byrjunarliðssæti. Það tókst og gott betur. Aðspurður um næsta tímabil segir Elías að hann hafi heyrt af áhuga erlendra liða á sér en hann sé ekkert búinn að spá í slíkt. „Ég myndi ekki stökkva á hvað sem er. Ég þarf að skoða þessi mál og ákveða svo hvað sé best í stöðunni, ég er ekkert að stressa mig á þessu.“ Elías náði einnig að vinna sér inn sæti í U21 liði Íslands á þessu sumri ásamt því að skora sex mörk. „Ég bjóst ekki við því að verða valinn í U21 liðið og það er bara bónus ofan á allt saman. Það er mjög sætt.“
Nálægt sínum markmiðum
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur segir að sigurinn hafi skipt liðið miklu máli. Gott hafi verið að enda vel til þess að fleyta liðinu inn í næsta tímabil í Pepsi-deildinni. Varðandi tímabilið í heild sinni segir hann að Keflvíkingar hafi ekki verið langt frá markmiðum sínum. Þeir hafi stefnt á sjötta sæti eða ofan og á að komast langt í bikarnum. Varðandi framhaldið hjá honum þá segist hann ekki vita hvað taki við hjá honum. „Ég hef ekki heyrt af áhuga annara liða. Þið verðið svo að spyrja dætur mínar hvort ég verði áfram hér í Keflavík,“ sagði Kristján glettinn við blaðamenn í leikslok.