Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Afreksíþróttasvið í boði hjá FS
Þriðjudagur 19. júní 2012 kl. 09:56

Afreksíþróttasvið í boði hjá FS



Næsta haust mun Fjölbrautaskóli Suðurnesja bjóða upp á afreksíþróttasvið sem ætlað er nemendum sem vilja stunda íþrótt sína með álagi afreksíþróttamanna, samhliða krefjandi bóknámi. Reiknað er með að boðið verði upp á knattspyrnu, körfuknattleik, sund, fimleika, vetraríþróttir og fleira. Það miðast við áhuga umsækjenda hvaða íþróttagreinar verða í boði. Nemendur á afreksíþróttasviði geta stundað nám á öllum bóklegum brautum. Efnisgjald fyrir afreksíþróttasvið verður innheimt sérstaklega til viðbótar við önnur skólagjöld.

Nemendur á afreksíþróttasviði fá tækifæri til að æfa íþrótt sína í upphafi skóladags undir stjórn menntaðra þjálfara. Einnig verður þeim boðið upp á fræðslu varðandi næringarfræði, íþróttasálfræði, íþróttalíffræði, framkomu í fjölmiðlum og fleira. Fylgst verður með árangri og framförum og nemendur taka m.a. þolpróf, hraðapróf, liðleikapróf, styrktarpróf, tæknipróf og persónuleikapróf.

Til að fá inngöngu á afreksíþróttasvið þurfa umsækjendur að vera með góðan námsárangur, hafa náð árangri í íþrótt sinni og hafa stundað hana í 6-10 ár, vera í hópi þeirra bestu meðal jafnaldra, hafa meðmæli síns íþróttafélags, vera í góðu líkamlegu ástandi og hafa rétt hugarfar til náms og íþrótta.

Þeir sem hafa innritað sig í Fjölbrautaskólann og hafa áhuga á að stunda nám á afreksíþróttasviði eru hvattir til að hafa samband við skólann sem fyrst.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024