Afrek Njarðvíkinga halda áfram
Fjórðungsmeistaramót Glímusambands Íslands fór fram fram um helgina á Hvolsvelli. Þar mættu allir bestu glímumenn og konur fjórðungsins. Njarðvíkingar mættu með 5 mann lið skipað þremur 12 ára drengjum, þeim Daníel Degi Árnasyni, Gunnari Erni Guðmundssyni og Jóel Helga Reynissyni sem kepptu í Opnum flokki 12ára, Halldóri Matthíasi Ingvarssyn sem keppti í flokki 15-17 ára og fullorðinsflokki og Kristjáni Snæ Jónssyni sem keppti í fullorðinsflokki. Daníel Dagur hreppti 2. sætið í flokki 12 ára eftir margar flottar viðureignir og tapaði hann í úrslitaviðureigninni. Gunnar og Jóel mættust í baráttunni um þriðja sætið og varð Gunnar hlutskarpari að þessu sinni.
Halldór sigraði í úrslitaviðureigninni í unglingaflokki með hælkrók hægri á vinstri og varð því fjórðungsmeistari í þessum flokki. Hefur nú þessi ungi og efnilegi bardagamaður úr Reykjanesbæ stimplað sig inn í íslenskt gímulíf því hann nældi sér í brons í fullorðins flokki þrátt fyrir að vera eins 14 ára. Að vísu er það engin furða því drengurinn er stór og rammur að afli.
Njarðvíkingurinn og fyrrverandi fjórðungsmeistari í unglingaflokki, Kristján Snær Jónsson, varð annar í fullorðinsflokki eftir mjög erfiðar glímur en þessi ungi maður á greinilega framtíðina fyrir sér i íþróttinni.
Það sem af er þessu ári hafa Njarðvíkingar unnið til flestra þeirra titla sem í boði eru í íslensku fangbragðalífi, júdó, Bjj, glímu og öðrum fangbrögðum. Árangurinn er eftirtektarverður því deildin er ekki rekin sem afreksdeild, segir í tilkynningu frá UMFN.