Áfram spenna í 2. deild - Reynir og Njarðvík á sigurbraut
Spennan er áfram við völd í 2. deild karla í knattspyrnu en bæði Njarðvík og Reynir sigruðu sína leiki um helgina. Reynismenn sigruðu KF 2-0 á heimavelli sínum í Sandgerði og Njarðvíkingar sigruðu Völsunga 2-1 fyrir norðan.
Það var hátíðarstemning yfir N1-vellinu á laugardeginum á Sandgerðisdögum. Reynismenn voru sterkari aðilinn allan leikin og héldur sér í toppbáráttu deildarinnar með 2-0 sigri þar sem Þorsteinn Þorsteinsson og afmælisbarnið Guðmundur Gísli Gunnarsson sáu um að skora mörkin en fjallað er um leikinn á heimasíðu Reynismanna.
Þrátt fyrir að Reynismenn hafi haft yfirburði í fyrri hálfleik leit allt út fyrir að jafnt yrði í leikhléi. Jóhann Magni Jóhannsson misnotaði m.a. vítaspyrnu en á 45. mínútu slapp Þorsteinn Þorsteinsson einn í gegnum vörn KF og kom heimamönnum í 1-0 rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks.
Í síðari hálfleik var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Reynismenn áttu mjög auðvelt með að verjast hægum og hugmyndasnaðum sóknarleik norðanmannanna og voru sífellt ógnandi með hröðum sóknaraðgerðum. Þegar korter var liðið af hálfleiknum slapp Guðmundur Gísli Gunnarsson einn inn fyrir vörn KF eftir hraða sókn, skoraði örugglega og kom Reyni í 2-0. Guðmundur hélt upp á 28 ára afmælið sitt á laugardaginn og því skemmtilegt að þessi leikni sóknarmaður skyldi skora.
Þrátt fyrir að vera mikið með boltann það sem eftir lifði leik náðu gestirnir ekki að ógna marki Reynis svo heitið gæti. Heimamenn voru hins ógnandi fram á við sem áður og líklegri til að bæta við sínu þriðja marki en KF að minnka muninn. Norðanmenn létu mótlætið fara í skapið á sér og brutu oft óskynsamlega og eyddu mikilli orku í að rífast og skammast. Áður en yfir lauk var búið að reka þjálfara þeirra, Lárus Orra Sigurðson, af varamannabekknum og gefa út nokkur gul spjöld á gestina.
Baráttusigur á Húsavík
Njarðvíkingar sótt þrjú stig til Húsavíkur á laugardag er þeir sigrðu Völsung 1 - 2. Njarðvikingar byrjuðu leikinn af krafti og á fyrstu 10 mín leiksins fengu þeir einar 6-7 hornspyrnur. Heimamenn komust inní leikinn betur og betur og á 22. mínútu náðu Völsungar forystunni þegar Jónas Halldór Friðriksson skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Hættulegasta færi Njarðvíkinga í fyrri hálfleik kom þegar Einar Marteinsson skallaði boltann í slánna og þar niður á línuna en heimamönnum tókst að stýra hættunni frá.
Njarðvíkingar byrjuðu seinni hálfleik vel og greinilega ætluðu að jafna leikinn sem tókst eftir tæpar 10 mínútur þegar Magnús Örn Þórsson skoraði með bakfallsspyrnu sem vitist hættulaus en lenti í markinu. Ólafur Jón Jónsson gerði síðan sigurmark Njarðvíkinga á 69. mínútu. Það sem eftir lifði af leiknum skiptust liðin á að sækja ogVölsungar áttu m.a. stangaskot rétt undir lok leiksins og þar skall hurð nærri hælum. En þrjú stig í safn Njarðvíkinga eftir baráttusigur.
Það er ennþá sama keppnin um þau tvö sæti sem gefa þátttökurétt í 1. deild að ári og allt getur gerst þegar þrjár umferðir eru eftir. Næsti leikur Njarðvíkinga er gegn Fjarðarbyggð á laugardaginn kemur kl. 14:00 á Njarðtaksvellinum og Sandgerðingar fara á Egilsstaði og kljást við Hattarmenn. Í lokumferðinni munu svo Reynismenn heimsækja Njarðvíkinga en sá leikur gæti átt eftir að vera ansi þýðingarmikill fyrir bæði liðin.
Staðan
Mynd/EJS: Jóhann Magni Jóhannsson er markahæstur í deildinni með 15 mörk.