Áfram Keflavík!
Oft er þörf en nú er nauðsyn. Liðið okkar Keflavík hefur átt á brattan að sækja. Við stuðningsmenn liðsins, virkir og þeir sem hafa bakkað í skuggann ætlum nú að stíga fram og taka höndum saman og standa við bakið á liðinu, þjálfurum og stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur. Mæta aftur á völlinn og hvetja liðið til dáða.
Nú gleymum við stigatöflunni um stund og flautum á nýjan leik nk. þriðjudagskvöld þegar FH kemur í heimsókn. Við eins og leikmennirnir ætlum að hafa gaman af leiknum. Þeir ætla að spila sinn leik til sigurs en við stuðningsmennirnir ætlum að mynda órofa stuðning á leiknum og hvetja liðið okkar til dáða. Við gefumst ekki upp þó á móti blási.
Við ætlum að grilla fyrir leik og mynda góða stemningu á pöllunum. Allir sem koma merktir Keflavík á völlinn fá frítt inn. Vera í treyjum, með húfur eða trefla merkta liðinu og þið fáið frían miða fyrir ykkur og alla fjölskylduna.
Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn að þeir standi saman þegar mest á reynir. Nú reynir á hvort við rísum undir því og mætum til leiks og stöndum með „Strákunum okkar, Keflavík“ þegar þeir þurfa mest á okkar stuðningi að halda.
Fjörið byrjar á vellinum klukkutíma fyrir leik á þriðjudag eða kl. 18.00. Pylsur, hamborgarar, gos, klöppur, fánar og stemning sem PUMASVEITIN sér um. Nú hoppum við öll um borð og hrópum. ÁFRAM KEFLAVÍK þar til við höfum ná í stigin sem liðið þarfnast. Okkar framlag getur ráðið úrslitum.
Stuðningsmenn.