Áfram eftir sigur í spennuleik
Njarðvíkingar hafa tryggt sér sæti í úrslitum Iceland Express deildar karla í fyrsta sinn síðan 2002. Njarðvík bar sigurorð af KR í gærkvöldi 85 – 95 í DHL – höllinni í spennandi og skemmtilegum leik. Undanúrslitarimmu liðanna lauk því 3-1 Njarðvík í vil.
Friðrik Stefánsson opnaði leikinn en Pálmi Sigurgeirsson jafnaði um hæl fyrir KR 2-2. Jafnt var á með liðunum í upphafi en Njarðvík var yfir að loknum 1. leikhluta 16 – 19. Brenton opnaði 2. leikhluta með þriggja stiga körfu og það kveikti í Njarðvíkingum sem breyttu stöðunni fljótlega í 23-30 sér í vil. Heimamenn voru ekki af baki dottnir og svöruðu með góðum kafla og komust í 38 – 35. Friðrik Stefánsson kom Njarðvíkingum yfir að nýju með skrímslatroðslu 38–39 og strax í næstu sókn fékk Melvin Scott villu á varnarmenn Njarðvíkurliðsins og körfu góða, Melvin setti niður vítið og breytti stöðunni í 41-39.
Þegar um 10 sekúndur voru til hálfleiks var staðan 42–42 og kom Brenton Birmingham inn á í liði Njarðvíkur. Brenton fékk boltann og tók þriggja stiga skot sem geigaði en boltinn barst aftur til hans úti við þriggja stiga línuna og í þetta skiptið rataði hann rétta leið og Njarðvík hafði yfir í hálfleik 42-45.
Guðmundur Jónsson hóf síðari hálfleikinn á þriggja stiga körfu og kom Njarðvík í 48-42. Njarðvíkingar léku á als oddi í upphafi 3. leikhluta og náðu 14 stiga forskoti 47-61 þar sem Guðmundur fór mikinn. Þegar tæp mínúta var til loka 3. leikhluta fékk Fannar Ólafsson sína 4. villu og hélt á bekkinn. KR-ingar klóruðu þó í bakkann fyrir lok leikhlutans og var staðan 59 – 65 fyrir Njarðvík er 4. leikhluti hófst.
Þeir Friðrik Stefánsson og Egill Jónasson fengu báðir sína 4. villu í upphafi síðasta leikhlutans. Brynjar Björnsson neitaði að játa sig sigraðan og skaut KR-ingum að nýju inn í leikinn með tveimur mikilvægum þriggja stiga körfum. Í kjölfarið fylgdi góður kafli hjá KR sem komst yfir 73–70. Við þetta vaknaði Jóhann Árni Ólafsson og gerði 4 stig í röð hjá Njarðvík og var staðan 73-76 Njarðvík í vil þegar tæpar 3 mínútur voru til leiksloka. Fannar Ólafsson fékk skömmu síðar sína 5. villu og varð frá að víkja eftir brot á Friðriki Stefánssyni sem breytti stöðunni í 73-80 fyrir Njarðvík. Enn á ný mætti Brynjar og minnkaði muninn í 76-80 en eftir það var sagan öll. Njarðvíkingar héldu forystunni sama hversu ævintýralegar körfur Melvin Scott og Brynjar Björnsson settu niður þá náðu Njarðvíkinar alltaf að svara og höfðu að lokum sigur 85-90 í spennuleik.
Jeb Ivey lék allan leikinn hjá Njarðvík og gerði 23 stig í leiknum og tók 8 fráköst. Hjá KR gerði Brynjar Björnsson 20 stig og hitti úr 5 af 11 þriggja stiga skotum sínum.
VF-myndir/ JBÓ
[email protected]