Afbragðs skytta til Keflvíkinga
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur samið við bandarísku stúlkuna Jessica Jenkins um að leika með kvennaliði félagsins á komandi tímabili. Jessica er bakvörður en hún lék með liði St. Bonaventure University í NCAA háskólaboltanum. Þar skoraði hún 14 stig að meðaltali í leik síðasta árið sitt en það ár komst lið hennar alla leið í 16 liða úrslit og kom hún sterklega til greina sem Naismith National leikmaður ársins.
Jessica þykir afbragðs þriggja stiga skytta en á ferli sínum skoraði hún 338 þriggjastigakörfur, sem gerir hana í 13. sæti yfir flestar slíkar körfur í sögu NCAA háskóladeildarinnar.
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, sagðist í samtali við heimasíðu Keflavíkur vera spenntur að fá Jessica til liðs við félagið. „Við erum spennt yfir því að fá þessa beittu skyttu til liðs við okkar unga Keflavíkurlið. Við vonumst til að hún sé síðasti hlekkurinn í keðjunni sem draga mun titlana aftur til Keflavíkur, þangað sem þeir eiga heima”, sagði Sigurður.
Keflavík.is.