Íslandsmeistarar Njarðvíkur hafa vinninginn í frákastabaráttunni þegar farið er yfir tölfræðina í fyrstu tveimur leikjum Njarðvíkur og KR í úrslitum Iceland Express deildarinnar. Njarðvíkingar hafa tekið 79 fráköst í leikjunum tveimur en KR aðeins 66. Staðan í einvíginu er jöfn, 1-1 eftir sinn hvorn heimasigur liðanna. Liðin eru að fá dæmdt á sig svipað magn af villum en KR hefur í fyrstu tveimur leikjunum fengið 46 talsins á meðan Njarðvíkingar hafa fengið dæmdar á sig 42 villur. Þriðji leikurinn fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík á laugardag og hefst leikurinn kl. 14:50 og verður hann í beinni útsendingu hjá SÝN.
Þó Njarðvíkingar hafi tekið fleiri fráköst en KR er það landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson sem tekið hefur flest fráköst allra eða 21 í tveimur leikjum. Alls voru þau 11 í fyrsta leik og svo 10 í gær þegar KR lagði Njarðvík 82-76 í DHL-Höllinni. Fannar er því með 10,5 fráköst að meðaltali í leik í þessum tveimur leikjum.
Jeb Ivey hefur leikið flestar mínútur allra til þessa eða alls 76 mínútur en fast á hæla hans er Brenton Birmingham, liðsfélagi Ivey, með 75 mínútur. Flestar mínútur í KR liðinu hefur Tyson Patterson eða 70 mínútur. Ivey er einnig stigahæstur að meðaltali í einvíginu með 20 stig að meðaltali í leik en næstur honum kemur Tyson Patterson með 18 stig að meðaltali í leik. Patterson hefur einnig gefið flestar stoðsendingar í leikjunum til þessa eða 17 talsins sem gera 8,5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Brenton Birmingham er næstur Patterson með 6 stoðsendingar að meðaltali og alls 12 stykki í heildina.
Egill Jónasson hefur varið flest skot í rimmunum en þau eru þrjú talsins og varði hann öll skotin í einum og sama leiknum, tapleiknum í gær.
Njarðvíkingar hafa alls tekið 61 vítaskot í einvíginu og hitt úr 44 en það gerir 72 % vítanýtingu sem er þokkalegt. KR hefur tekið 37 vítaskot í leikjunum tveimur og hitt úr 28 og gerir það tæplega 76% skotnýtingu af línunni.
KR hefur tekið nokkuð fleiri þriggja stiga skot en Njarðvík en alls eru þau 46 talsins og hafa 14 þeirra ratað rétta leið og er þriggja stiga nýting KR-inga í leikjunum því 30,4% en Njarðvíkingar hafa skotið 38 þriggja stiga skotum og sett niður 11 þeirra. Nýting Njarðvíkinga er því 29% og enn hafa KR því betur í skotnýtingunni, þ.e er á vítalínunni og fyrir utan þriggja stiga línuna.
Í teigskotum hafa Njarðvíkingar tekið alls 100 teigskot og sett niður 49 sem gerir 49% skotnýtingu úr teignum. KR hefur tekið 90 teigskot og 45 þeirra hafa ratað rétta leið svo enn hafa KR-ingar skotnýtingarvinninginn á Njarðvík með 50% skotnýtingu úr teignum.
Alls eru tapaðir boltar 23 í herbúðum KR á meðan þeir eru ekki nema 17 hjá Njarðvíkingum. Þá hafa Njarðvíkingar einnig stolið fleiri boltum en KR eða 15 í allt á meðan KR hefur aðeins stolið 10 boltum í leikjunum tveimur.
Þeir Jeb Ivey og Tyson Patterson hafa heilt yfir verið að standa sig best hjá liðunum en aðrir eru meira rokkandi og merkist það best á frammistöðu nokkurra leikmanna hjá liðunum. Sem dæmi má nefna setti Brynjar Björnsson niður 18 stig og tók 4 fráköst í fyrsta leiknum en gerði ekki nema 2 stig í leiknum í gær. Þá var það akkúrat öfugt hjá Pálma Frey sem gerði ekkert stig í fyrsta leiknum í Njarðvík en sallaði niður 19 stigum á þá grænu í gær. Jóhann Árni Ólafsson gerði 21 stig hjá Njarðvíkingum í gær en aðeins 5 stig í fyrsta leiknum og þá gerði Igor Beljanski 20 stig í fyrsta leik í Njarðvík en setti aðeins 5 stig í gær.
Nokkuð sveiflukennt framlag hjá sterkum leikmönnum beggja liða og mikilvægt fyrir bæði lið að þessir leikmenn leiki nærri meðaltali sínu og skili sinni vinnu á jafnari máta. Á báða bóga hefur það sýnt sig að þessir leikmenn hafa átt það til að ríða baggamuninn fyrir sín félög.
Fróðlegt verður að fylgjast með þriðja leik liðanna á laugardag sem hefst kl. 14:50 í Ljónagryfjunni.
[email protected]