Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Ættum að vera búnir að skora miklu fleiri mörk
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 30. júní 2023 kl. 06:05

Ættum að vera búnir að skora miklu fleiri mörk

segir Reynismaðurinn Kristófer Páll Viðarsson sem er með þeim markahæstu í 3. deild karla í knattspyrnu

„Það er bara geggjað að vera kominn aftur í Reyni,“ segir Kristófer sem færði sig yfir til Grindavíkur í byrjun síðasta tímabils en er nú á láni hjá Reyni. „Mér líður svo svakalega vel hérna.“

Norður- og suðurhlutinn á toppnum

Bæði lið Suðurnesjabæjar, Reynir og Víðir, unnu stórsigra um síðustu helgi og eru komin með nítján stig eftir níu umferðir. Þau sitja í efstu sætum 3. deildar, Reynismenn eru skörinni ofar með tveimur mörkum betra markahlutfall en Víðismenn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig líst þér á stöðuna í 3. deildinni?

„Bara mjög vel, við erum solid. Við eigum náttúrlega að vera búnir að skora miklu meira en við höfum gert – samt erum við með flest mörk í deildinni. Við erum búnir að vera að klúðra fjórum til sex góðum færum í leikjum.“

Það er hörkubarátta á milli norður- og suðurhluta Suðurnesjabæjar í deildinni, hvernig heldurðu að hún fari?

„Já, ég hlakka til að spila á móti þeim aftur. Fyrri leikurinn á móti þeim var náttúrlega bara hundleiðinlegur, ég held að stúkan hafi ekki fengið neitt skemmtilegan leik þar. Þótt þjálfararnir séu kannski ekkert sáttir við að ég segi það en þá held ég að við vinnum deildina. Ég spilaði síðast í þessari deild þegar ég var sextán eða sautján ára, ég held að ég hefði ekkert verið að fara þangað nema með það markmið – en það er bara mitt persónulega markmið, ekkert sem liðið hefur gefið út. Mitt markmið er að fara upp og helst í fyrsta sæti.“

Úr bæjarslag Víðis og Reynis í fjórðu umferð deildarinnar sem lyktaði með 1:0 sigri Víðismanna.
Kristófer hlakkar til að spila á móti þeim aftur.


Og taka markakónginn líka?

„Það var alls ekkert eitthvað markmið,“ segir Kristófer hlægjandi. „Ég skora alltaf mín mörk, ég veit það. Ég held að ég hafi aldrei skorað eins ljót mörk eins og í síðasta leik.“

Undirrituðum fannst nú fyrsta markið æðislegt en þá tók Kristófer sénsinn og stakk sér inn fyrir vörn Kára sem var undir mikilli pressu. Varnarmaður ákvað að gefa á markmann en sá of seint að Kristófer beið eins og hrægammur fyrir innan og fékk boltann beint í fæturna.

„Maður var klókur að komast inn í sendinguna. Ég var mjög ánægður með þetta hjá mér en greyið drengurinn sem sendi til baka er fæddur árið 2006. Hann lærir af þessu.“

Kristófer lúrði fyrir innan vörn Kára og fékk fína sendingu frá varnarmanni.
„... en greyið drengurinn sem sendi til baka er fæddur árið 2006. Hann lærir af þessu.“


Kristófer býr í Njarðvík og sonur hans, sem er á þriðja ári, býr til skiptis hjá honum og móður sinni.

„Það er meginástæðan fyrir því að ég fékk skiptin í gegn, til að fá meiri slaka. Ég var orðinn svolítið þreyttur á að redda pössun endalaust eftir leikskólann. Það er talsvert stífara prógram í Lengjudeildinni en þeirri þriðju, maður er kannski fjóra tíma á hverri æfingu með öllu prógraminu. Mæting tímanlega en ég geri það hjá Reyni þegar ég er ekki með strákinn – er mættur yfirleitt klukkutíma fyrir og farinn klukkutíma eftir æfingar.“

Er strákurinn byrjaður að sparka bolta?

„Hann er allavega byrjaður að biðja um fótboltaskó. Ég tek hann stundum með mér á æfingar, hann er sko byrjaður að sparka og hefur gaman af því.“

Kristófer starfar á Björkinni og Öspinni í Njarðvíkurskóla og segir það vera æðislegt starf.

„Það er rosalega gaman, er með Steindór [Gunnarsson sundþjálfara] með mér á Björkinni. Það er algjör toppgaur, geggjað að vera með honum.“

Þeir geta reynt en þeir verja hann ekki þarna. Hnitmiðaðar aukaspyrnur eru aðalsmerki Kristófers. Hér skorar hann fyrir Grindavík á síðasta tímabili.


Að jafna sig af meiðslum

Er þetta eitthvað sem þú fórst að læra?

„Nei, ég lærði styrktarþjálfun. Ég er smá í því en er bara svo lélegur að koma mér á framfæri í þessum samfélagsmiðlum. Það kemur enginn til manns nema maður láti vita af sér – en ég hef grætt helling á þessu sjálfur. Ég held að ég sé búinn að ná mestu af hraðanum aftur, sem ég missti við þessi endalausu hnémeiðsli. Fann það alveg að maður var ekki eins hraður og áður.

Ég þarf að fá smá slaka til að ná mér í stand aftur. Hnéð er búið að fara í tætlur held ég sex sinnum, fyrst sextán, sautján ára þegar ég spilaði í þessari deild. Svo lenti ég í því aftur árið á eftir, þannig að þetta er búið að vera bölvað vesen.

Fyrst fór hnéskelin úr lið. Liðbandið, krossbandið og liðþófinn fóru í tætlur en það slitnaði ekki heldur rifnaði. Þannig að það var ekki nein aðgerð en oft og tíðum er talað um að það sé betra að slíta bara, því þá er þetta bara lagað. Þegar ég kom svo til baka þá var allt lausara. Þegar ég var í Keflavík tókst mér að væla út aðgerð því þegar ég tók innanfótarsendingu fann ég bara liðinn opnast. Það var ekki hægt,“ sagði Kristófer að lokum en hann er óðum að komast í sitt besta form og stefnir væntanlega á að leika með Reynismönnum í 2. deild að ári.