Ætlum okkur þrjá punkta í kvöld
- Segir Haraldur Guðmundsson fyrirliði Keflvíkinga
Það virðist vera mikill áhuga fyrir leik Keflvíkinga og Víkinga Ó. sem fram fer í Keflavík í kvöld. Þessi lið berjast á botni Pepsi deildarinnar og því er um gríðarlega mikilvægan leik að ræða. Nokkrir galvaskir Keflvíkingar hafa tekið sig til og búið til síðu á facebook þar sem blásið er í herlúðra og fólk hvatt til þess að mæta og styðja Keflvíkinga til sigurs í kvöld.
Hér má sjá viðburðinn en nú þegar hafa um 200 manns staðfest komu sína á leikinn og um leið gegnist við því að vera alvöru Keflvíkingar.
Haraldur Guðmundsson fyrirliði Keflvíkinga segir að leikmenn geri sér fyllilega grein fyrir því að illa hafa gengið að sækja stig og þá sérstaklega á heimavelli. Haraldur segir andann vera góðan í liðinu og hann segir menn vera bratta fyrir leikinn í kvöld. „Þetta er ekkert búið eftir þennan leik. Hvort sem við vinnum eða töpum þá er nóg eftir,“ en 30 stig eru ennþá í boði. Fyrirliðinn segir að hingað til hafi Keflvíkingar einfaldlega ekki verið nógu góðir til þess að verðskulda fleiri stig. Alltaf sé hægt að tala um ef og hefði en nú sé tími til þess gera eitthvað á vellinum. Ekki sé hægt að kenna meiðslum um eða óheppni, það jafnist yfirleitt út.
Með þjálfaraskiptum koma nýjar áherslur en hingað til hafa þjálfaraskipti Keflvíkinga ekki skilað miklu í stigum talið. Haraldur segir að þjálfararnir spili ekki leikina og nú sé það undir leikmönnum komið að sanna sig með betri spilamennsku. „Við trúum því að við séum nógu góðir til þess að spila meðal þeirra bestu. Við getum ekki verið að spá í því sem er liðið og horfa aðeins fram á veginn. Við þurfum að ná góðu flæði í okkar leik. Við erum klárir og ætlum okkur að ná í þrjá punkta í kvöld, það er dagsskipunin. Það er að duga eða drepast fyrir okkur,“ segir Haraldur.
Tengd frétt: Verðum að hætta að „lorta“