Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Ætlum okkur að klára þetta á laugardaginn,“ segir Sverrir
Miðvikudagur 28. mars 2012 kl. 14:19

„Ætlum okkur að klára þetta á laugardaginn,“ segir Sverrir



„Það voru engar sérstakar varnir í leiknum. Þetta var barátta út í gegn og það sást að þessi tvö lið eru mjög jöfn,“ sagði Sverrir Þór þjálfari Njarðvíkinga að loknum sigri á Snæfelli í gær. Lokatölur urðu 93-85 í spennandi leik þar sem sóknarleikur var leikmönnum huglægastur.

„Maður er bara ánægður ef maður sigrar leik í svona seríu og það frábært að vera kominn í 2-1, og jafnframt eiga þá möguleika á að klára dæmið í næsta leik. Það ætlum við okkur að gera á laugardaginn í Stykkishólmi.“ Sverrir er þó á því að hvaða lið af þessum fjórum sem eftir eru geti unnið titilinn í ár, öll séu þau álík að styrkleika. „Nú fáum við nokkra daga til að undirbúa okkur en þetta er búin að vera mikil törn í fyrstu leikjunum,“ en þétt hefur verið spilað að undanförnu.

Eins og áður segir var varnarleikurinn ekki hafður að leiðarljósi en á tímabili í seinni hálfleik small svæðisvörn Njarðvíkinga saman og þær náðu að hemja Kieraah Marlow sem hafði verið illviðráðanleg í fyrri hálfleik „Við fórum aðeins að spýta í lófana um tíma í leiknum en fram að því var þetta ansi dapurt, vörnin nánast alveg opin og greið leið að körfunni. Það er líklega það sem skipti máli hér í kvöld, “sagði Sverrir að lokum.

Næsti leikur liðanna fer fram á laugardag klukkan 15:00 í Stykkishólmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024