Ætlum að halda hreinu
Öskubuskusigur Keflavíkur gegn Midtjylland í fyrri leik liðanna í undankeppni UEFA keppninnar hefur heldur betur vakið silfurlið dönsku úrvalsdeildarinnar. Midtjylland lék sinn annan leik í dönsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og skellti Bröndby 5-0. Keflvíkinga bíður því ærinn starfi í Danmörku í dag þegar síðari leikur liðanna fer fram. Leikurinn hefst kl. 19:00 að dönskum tíma eða kl. 17:00 að íslenskum tíma. Kristinn Guðbrandsson aðstoðarþjálfari Keflavíkur veit að andstæðingarnir verði tilbúnir í leik dagsins.
„Við gerðum vel að vinna Midtjylland í fyrsta leik og við vitum að þeir koma með allt öðru hugarfari í leikinn í dag en þeir gerðu í Keflavík. Við unnum engu að síður vel fyrir okkar sigri á heimavelli en núna er Midtjylland uppi við vegg og þurfa að bíta frá sér,“ sagði Kristinn í samtali við Víkurfréttir.
Veganestið sem Keflvíkingar fóru með til Danmerkur var 3-2 ósigur gegn tíu FH-ingum í Kaplakrika en getur þetta súra nesti Keflavíkur haft einhver áhrif í dag? „Það var mjög svekkjandi að tapa gegn FH en það er erfitt að segja hvort sá leikur hafi einhver áhrif á okkur enn þann dag í dag. Engu að síður vitum við að það búast margir við ósigri okkar í dag en við förum fyrst og fremst í þennan leik með það að hugarfari að halda hreinu. Einnig ætlum við að beita okkar öflugum skyndisóknum,“ sagði Kristinn.
Markvörðurinn Ómar Jóhannsson verður ekki með í leiknum úti þar sem hann og unnusta hans eiga von á barni og þá verður nýliðinn Pétur Heiðar Kristjánsson ekki með þar sem hann var ekki skráður í UEFA hóp Keflavíkur.
„Við vitum að Midtjylland voru ekki með sitt sterkasta lið gegn okkur heima og nú koma inn í hópinn þeirra nokkrir leikmenn sem mér skilst að hafi verið tæpir. Keflavíkurvörnin verður þétt fyrir í dag og það mun skipta mestu máli í þessum leik fyrir okkur,“ sagði Kristinn og hver veit nema Bikarmeisturunum takist að galdra fram annan sigur gegn silfurliði Dana.