Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Ætla að láta finna fyrir mér“
„Ég er gríðarlega stoltur og ánægður að hafa fengið tækifæri og ég á svo sannarlega eftir að láta finna fyrir mér hérna. Við Tommy erum með ákveðnar hugmyndir og það eru breytingar í vændum“
Sunnudagur 2. nóvember 2014 kl. 12:23

„Ætla að láta finna fyrir mér“

Óli Stefán segir breytingar í vændum hjá Grindavík

Grindvíkingurinn Óli Stefán Flóventsson er nú kominn aftur á heimaslóðir eftir fimm ára veru á Hornafirði þar sem hann lék með og þjálfaði lið Sindra. Nú hefur hann tekið við starfi aðstoðarþjálfara meistaraflokks Grindavíkur karla. Þar ætlar Óli Stefán að láta til sína taka. Hann mun annast þjálfun 3. flokks, stefnumótun, afrekslínu og forvarnavinnu hjá félaginu.

„Þetta leggst vel í mig og er mikið og spennandi starf. Við þurfum að lyfta upp öllu starfinu heima og það er spennandi að taka þátt í því. Ég kem í þjálfarateymið með Tommy Nilsen og það samstarf gæti orðið gott. Ég veit að félagið er stórhuga og ætlar sér stóra hluti í náinni framtíð. Ég er ótrúlega spenntur að byrja, enda með stórar og miklar hugmyndir.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tommy einn mesti sigurvegari íslenskrar knattspyrnu

„Nú erum við Grindvíkingar í naflaskoðun. Við þurfum að skoða allt okkar starf frá a-ö og gagnrýna okkur á jákvæðan hátt. Fyrst og síðast verðum við að gera okkur grein fyrir því að 1. deildin er góð deild og maður labbar ekkert í gegnum hana. Grindavík er bara þannig klúbbur að við ætlum okkur að vera ofarlega og gera atlögu að sæti í efstu deild. Við verðum þó að gera það af virðingu og án hroka, það er alveg á hreinu,“ segir Óli Stefán. Hann hlakkar til að vinna með aðalþjálfaranum Tommy Nilsen sem hefur farið svipaða leið og Grindvíkingurinn. „Tommy er afbragðsdrengur með mikið fótboltavit. Ég held að Grindavík hafi gert vel með því að næla í hann, þar sem Tommy er einn mesti sigurvegari íslenskrar knattspyrnu. Hann er margfaldur Íslandsmeistari með FH og vann 3. og 2. deild á tveimur árum. Hann veit hvað þarf til að vinna og það er eitthvað sem þarf inn í okkar starf í Grindavík.“

Er möguleiki á að sjá Óla Stefán aftur í gulu treyjunni? „Það þarf að vera rosalegt hallæri til að svo verði,“ segir Óli og hlær. Hann ætlar fyrst og fremst að einbeita sér að þjálfun enda lagði hann skóna formlega á hilluna í haust.

Óli var upp með sér að Grindvíkingar hafi sóst eftir starfskröftum hans eftir að hann ákvað að hætta hjá Sindra. „Auðvitað leitaði hugurinn heim, það er draumur að koma hingað þar sem maður þekkir hvern krók og kima, til þess að hjálpa til við að rífa upp starfið. Ég er gríðarlega stoltur og ánægður að hafa fengið tækifæri og ég á svo sannarlega eftir að láta finna fyrir mér hérna. Við Tommy erum með ákveðnar hugmyndir og það eru breytingar í vændum,“ segir þjálfarinn að lokum.