Æskuvinir saman í norska boltanum
Samúel Kári til liðs við Vålerenga - „Er kominn til þess að spila“
Keflvíkingurinn efnilegi, Samúel Kári Friðjónsson heldur á vit nýrra ævintýra í fótboltanum eftir að hafa dvalið á Englandi hjá liði Reading síðastliðin rúm þrjú ár. Samúel hefur nú samið við norska úrvalsdeildarliðið Vålerenga þar sem hann hittir fyrir æskuvin sinn Elías Má Ómarsson sem leikið hefur með liðinu í eitt ár.
„Við erum auðvitað búnir að vera æskuvinir síðan við vorum sex ára og spiluðum í mörg ár saman. Við erum góðir vinir og þetta er mjög þægilegt fyrir okkur báða. Vonandi vegnar okkur báðum vel,“ segir Samúel þegar blaðamaður Víkurfrétta heyrir í honum frá hótelherbergi í Osló. Samúel heimsótti félagið fyrir skömmu og þá gisti hann hjá Elíasi sem fræddi hann um norska boltann og félagið Vålerenga. Þeir kumpánar eru einnig samherjar í 21 árs liði Íslands og hafa verið samferða í gegnum öll yngri landsliðin.
Samúel viðurkennir að það sé ákveðinn léttir að vera búinn að ganga frá sínum málum en hann hafði ákveðið að segja skilið við Reading í lok síðasta tímabils. „Mér líst bara mjög vel á þetta og það má segja að ég sé að fá nýtt upphaf. Ég taldi þetta vera góða leið til þess að fá aftur leikgleðina.“ Á þeim árum sem Samúel dvaldi í Englandi gekk hann í gegnum tvær þjálfaraskiptingar hjá Reading. Hann segir að undir lok síðasta tímabils hafi hann því ákveðið að leita annað og byrjað að líta í kringum sig.
Hugsaði um að spila heima
Fjöldi liða leitaðist eftir kröftum Samúels. Lið á norðurlöndum, Englandi og í efstu deild á Íslandi. „Ég hugsaði um að spila í Keflavík og þá líka í Pepsi-deildinni en tók þá ákvörðun að vera í fríi eftir langt tímabil,“ segir Samúel. Nú nýlega orðinn tvítugur tekst Samúel á við ævintýri í nýju landi og í deild sem hann þekkir lítið til. Friðjón, faðir Samúels, bjó í Noregi í mörg ár og talar vel um land og þjóð, það hjálpaði við þegar ákvörðun var tekin sem og fyrir það að Elías spilar með liðinu, það var ekkert að skemma fyrir, að sögn Samúels. Samúel reiknar með því að vera í stöðu miðjumanns sem fær bæði að sækja og verjast, „box to box,“ leikmaður eins og það kallast á ensku. „Ég er kominn hingað til þess að spila, það er bara þannig,“ segir hinn metnaðarfulli leikmaður sem ætlar sér að vera hluti af hóp u21 landsliðsins sem keppist um að komast í lokakeppni EM í þeim aldurshópi.