Æsispennandi lokamínútur í Ljónagryfjunni
Það varð heldur betur spenna á lokamínútum leiks Njarðvíkur og Grindavíkur í fyrstu viðureign liðanna í úrslitakeppni Subway-deildar karla í körfuknattleik sem fór fram í Ljónagryfjunni, heimavelli Njarðvíkinga. Eftir að heimamenn hafi leitt með sautján stigum í hálfleik (50:33) tóku gestirnir heldur betur við sér og náðu að minnka muninn tvö stig þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks. Öflug endurkoma þeirra í fjórða leikhluta setti verulega pressu á Njarðvíkinga sem héldu þó út og lönduðu að lokum þriggja stiga sigri, 87:84, og hafa því tekið forystu í einvíginu.
Njarðvíkingar litu talsvert betur út en gestirnir í byrjun leiks og fyrri hálfleikur var algerlega í þeirra höndum. Grindvíkingar áttu í talsverðum vandræðum varnar- og sóknarlega og heimamenn stýrðu leiknum algerlega. Það var allt annað að sjá til Grindavíkurliðins í seinni hálfleik og gestirnir tóku að snúa leiknum sér í hag. Ólafur Ólafsson setti í yfirgír og keyrði samherja sína í gang í þriðja leikhluta þegar hann setti niður þrjá þrista.
Í fjórða leikhluta ætlaði allt um koll að keyra, Grindvíkingar minnkuðu muninn jafnt og þétt og unnu leikhlutann með tólf stiga mun – það var samt ekki nóg og heimamenn hafa örugglega andað léttar þegar leiktíminn rann út og sigurinn var þeirra.
Njarðvík - Grindavík 87:84
(31:23, 19:10, 17:19, 20:32)
Njarðvík: Nicolas Richotti 29, Dedrick Deon Basile 16/4 fráköst, Mario Matasovic 15/8 fráköst, Lisandro Rasio 13/15 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 8, Haukur Helgi Pálsson 6/7 fráköst, Logi Gunnarsson 0, Oddur Rúnar Kristjánsson 0, Jan Baginski 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 0.
Grindavík: Ólafur Ólafsson 27/11 fráköst, Bragi Guðmundsson 19, Gkay Gaios Skordilis 16/14 fráköst, Damier Erik Pitts 13/4 fráköst/11 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 5, Valdas Vasylius 4, Nökkvi Már Nökkvason 0, Hilmir Kristjánsson 0, Arnór Tristan Helgason 0, Magnús Engill Valgeirsson 0, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni og fangaði stemmninguna. Nánar verður fjallað um leikinn í fyrramálið og myndasafn sett í loftið.