Aðeins eitt Suðurnesjalið eftir í VISA-bikarnum
Bikardraumar Víðis og Reynis urðu að engu í gær þegar liðin töpuðu leikjum sínum í 16-liða úrslitum VISA-bikars karla í knattspyrnu. Reynir tapaði fyrir HK, 5-2, eftir framlengingu og Víðir tapaði fyrir KR á Garðsvelli, 0-2.
Á Garðsvelli var fyrirfram ekki búist við jöfnum leik, enda eru Víðismenn í botnslag í 2. deild og KR í toppslag úrvalsdeildar auk þess að vera ríkjandi bikarmeistarar.
Vesturbæingar tóku fljótlega völdin á vellinum og skoruðu eitt mark sem dæmt var ógilt vegna rangstöðu auk þess sem Víðismenn björguðu á línu áður en Björgólfur Takefúsa kom KR loks yfir rétt fyrir hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiks vænkaðist hagur Víðismanna þegar landsliðsmarkvörðurinn Stefán Logi Magnússon fékk að líta rauða spjaldið fyrir brot á sóknarmanni Víðis rétt fyrir utan vítateig. Víðismenn náðu þó ekki að færa sér það í nyt þar sem þeir áttu í erfiðleikum með að byggja upp sóknir og ógnuðu aldrei verulega.
Það var svo Guðmundur Pétursson sem tryggði sigurinn í uppbótartíma þegar hann komst einn innfyrir vörnina og skoraði framhjá Rúnari Daníelssyni í marki Víðis.
Reynismenn hafa verið á miklu flugi í 2. deildinni í sumar en lentu fljótlega undir gegn heimamönnum í Kópavogi sem eru um miðja 1. deild. Calum Bett skoraði fyrsta markið á 19. mín og þar var um að ræða glæsimark af löngu færi, en Hörður Magnússon bætti öðru markinu við rétt undir lok fyrri hálfleiks.
Gamli refurinn Sinisa Kekic fór illa að ráði sínu á 66. mín þegar hann lét verja frá sér víti, en hann bætti fyrir það stuttu síðar þegar hann minnkaði muninn á 68. mín. Hann skallaði þar boltann í netið eftir hornspyrnu frá Kristjáni Óla Sigurðssyni.
Kristján var svo aftur á ferðinni tíu mínútum síðar þegar hann sendi boltann inn í teiginn og þar var mættur varamaðurinn Sigurður Ingi Vilhjálmsson sem skallaði framhjá markverði HK og jafnaði leikinn.
Ekki voru skoruð fleiri mörk en þetta áður en flautað var til loka venjulegs leiktíma og þurfti því að framlengja.
Kekic fékk ágætis tækifæri á að koma Reynismönnum yfir en náði ekki að nýta sér gott færi. Það voru hins vegar heimamenn sem náðu að setja fyrsta markið í framlengingu og var það Þórður Birgisson sem kom HK aftur yfir í blálok fyrri hálfleiks framlengingar. Eftir það tóku þeir öll völd á vellinum og bættu Hafsteinn Briem og Calum Bett við tveimur mörkum áður en yfir lauk.
Keflavík er eina liðið af Suðurnesjum sem verður í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitum á morgun, miðvikudag.
VF-myndir/elg