Adamshick ekki meira með Kefavík sem mætir KR í kvöld
Einn besti leikmaður kvennaliðs Keflavíkur í Iceland Express deildinni í körfu, Jackie Adamshick leikur ekki meira með liðinu en hún er ristarbrotin. Keflavík og KR mætast í sinni þriðju undanúrsitaviðureign í í kvöld kl. 19:15 í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ. Staðan í einvíginu er 1-1 þar sem liðin hafa unnið sinn hvorn heimaleikinn.
Keflavík vann fyrstu viðureignina á heimavelli en fyrir aðra viðureign liðsins var ljóst að Chazny Morris yrði ekki meira með KR svo Melissa Jeltema var fengin í vesturbæinn og fór mikinn í sigri KR sem þá jafnaði metin 1-1.
,,Fjórða beinið í ristinni er brotið hjá henni og læknirinn ætlaði ekki að trúa því að hún hefði spilað tvo leiki með þessi meiðsli,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur en leikmaðurinn beit á jaxlinn í síðustu tveimur viðureignum gegn KR en eftir síðasta leik í DHL-Höllinni var sársaukinn orðinn of mikill.
Þá má geta þess að Margrét Kara Sturludóttir verður í leikmannahópi KR í kvöld en hún missti af tveimur fyrstu viðureignum Keflavíkur og KR þar sem hún tók út leikbann.
Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki í þessari seríu kemst í úrslitaeinvígið þar sem verða annaðhvort Hamar eða Njarðvík en í gærkvöldi tók Hamar 2-1 forystu í því einvígi.
Keflavík-KR
Leikur 3 kl. 19:15 í Toyota-höllinni
Staðan í einvíginu 1-1.
Jackie í fyrsta leiknum gegn KR en það var augljóst að meiðslin í fætinum hrjáðu hana. VF-mynd/pállorri.