Aðalatriðið að fólk fari að hreyfa sig
Mikil aðsókn í áskorendakeppni Superforms í Sporthúsinu
Nú er sá tími ársins þar sem fólk fer oftar en ekki að huga að breyttum lífsstíl. Það vakti athygli nú á dögunum að Superform Áskorun sem fram fer í Sporthúsinu fylltist á aðeins rúmum sólahring. Við ákváðum að heyra í Sævari Inga, eiganda Superforms og forvitnast aðeins um þennan mikla áhuga á keppninni.
Sævar Ingi Borgarsson hefur upplifað margar breytingar og byltingar í heilsugeiranum. Hann hóf sjálfur að stunda líkamsrækt og lyftingar eftir að ferli hans lauk í fótboltanum í kringum aldamótin. Þar hafði hann ítrekað verið að glíma við meiðsli og þurfti að gangast undir fjölda aðgerða. „Ég fór í fjórar hnéaðgerðir og fótbrotnaði sex sinnum á ferlinum,“ segir Sævar pollrólegur. „Það er harka og læti í þessu og mikið um tæklingar,“ bætir hann við. Eftir að hann hætti í boltanum fór hann að hugsa til þess hvernig hann gæti haldið áfram að hreyfa sig. „Ég þurfti að finna leið til þess að losa um orku, en af henni hafði ég nóg.“ Hann fór því í líkamsræktina þar sem hann fór fljótlega að láta að sér kveða í kraftlyftingum og Icefitness þar sem hann vann til fjölda verðlauna. Hann segist hafa hætt allri keppni eftir að hungrið hvarf og þá sneri hann sér að þjálfun. Hann fékkst við einkaþjálfun í langan tíma og á endanum fór það svo að hann hannaði sitt eigið æfingakerfi.
Nánara viðtal við Sævar má lesa í nýjum Víkurfréttum sem koma í hús á Suðurnesjum í dag.