Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Að vera hluti af Davidson-fjölskyldunni er einstakt
Mánudagur 3. desember 2018 kl. 11:02

Að vera hluti af Davidson-fjölskyldunni er einstakt

Jón Axel Guðmundsson blómstrar í háskólaboltanum

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson hefur sannarlega vakið verðskuldaða athygli í Davidson, gamla háskóla Steph Curry leikmanns meistaraliðs Golden State. Jón hélt utan árið 2016 og hefur hægt og bítandi fest sig í sessi hjá þessum sterka skóla. Hann stefnir á atvinnumennsku að námi loknu enda hefur hann bætt sig mikið síðan hann yfirgaf heimahagana. Ingvi bróðir hans er einnig kominn í háskólaboltann og Bragi sá yngsti þykir ansi efnilegur. „Liðsfélagarnir eru alltaf jafn hissa á að sjá þau ítrekað hérna í heimsókn hjá mér, þau eru alveg einstök,“ segir Jón um foreldra sína. Vissulega var þó erfitt að ákveða að flytja út á sínum tíma.

„Þetta var dálítið erfitt í byrjun að koma í svona gjörsamlega nýtt umhverfi og vera ekki á hótel mömmu. En svo eftir fyrstu tvo mánuðina kom þetta hratt og auðveldlega og núna finnst mér alveg eins og Davidson sé heimili mitt,“ segir Grindvíkingurinn en skólinn er staðsettur í Norður-Karolínu og eru þar tæplega 2000 nemendur við nám.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Margt hefur breyst og ég er orðin vanari því að hugsa um mig núna. Þegar maður kom fyrst út þá var maður alltaf að hugsa hvað væri að gerast heima á Íslandi og hverju maður væri að missa af með vinunum. Þegar maður kemst yfir þá hugsun þá verður þetta allt miklu auðveldara.“ Á sínu fyrsta tímabili fékk Jón strax stórt hlutverk. Aðeins hefur einn nýliði spilað fleiri mínútur á sínu fyrsta ári en sá er ein skærasta stjarna körfuboltans og spilar í treyju númer 30 hjá meisturum Golden State Warriors.

Curry duglegur að mæta á leiki

„Að vera hluti af Davidson-fjölskyldunni er einstakt. Þetta er bara ein stór fjölskylda og þú þekkir alla sem hafa spilað með henni. Það eru alltaf fyrrum leikmenn sem koma á sumrin og spila með okkur. Sumir koma á einstaka leiki hjá okkur og koma svo inn í klefa eftir leik bara að spjalla við okkur. Steph Curry er í guðatölu hérna að sjálfsögðu, ef þú lítur bara á hvað þessi maður er að gera í NBA-deildinni þá er það líka skiljanlegt. Það segir allt um þessa Davidson-fjölskyldu er að Steph kemur ennþá á leiki hjá okkur. Í hvert skipti sem hann kemur til Charlotte að spila í NBA-deildinni kíkir hann með liðsfélögum sínum á leik hjá okkur,“ segir Jón. Hann segir að einkunnarorð skólans séu traust, skuldbinding og umhyggja (Trust-Commitment-Care) „Þetta er eitthvað sem hvert lið þarf að hafa til að spila vel saman og þetta er einnig eitthvað sem allir þurfa að hafa í lífinu sínu. Allir í Davidson-fjölskyldunni taka þessu mjög alvarlega og fylgja þessu eftir og þess vegna er þessi fjölskylda svo einstök.“

Hvernig ertu búinn að breytast sem leikmaður síðan þú fórst út?
„Ég hef fyrst og fremst bara þroskað minn leik líkamlega og hef lært hvernig á að stjórna leik mínum miklu betur en ég gerði. Ég hef bætt mikið „touchið“ mitt í kringum körfuna og líka þriggjastiga skotið mitt. Ef ungir leikmenn hafa tækifæri til að komast í eitthvað háskólaprógram myndi ég eindregið mæla með því. Þetta er geggjuð upplifun og þetta kennir þér svo margt sem er kannski ekki kennt á Íslandi.“

Bakvörðurinn hefur vakið athygli þarna ytra en hann hefur eflaust komið mörgum á óvart enda ekki þekkt nafn utan Íslands áður en hann fór í Davidson. Fjölmiðlar hafa verið duglegir að setja hann á lista yfir vanmetna leikmenn í háskólaboltanum.

„Ég held það sé meira bara að ég hef verið gríðarlega heppinn með liðsfélaga og hvað þeim hefur gengið vel. Ég gef alltaf haft frábæra gæja með mér sem hafa fengið meiri athygli en ég. Ég hef hins vegar alltaf litið á mig sem leikmann sem gerir litlu hlutina sem sjást kannski ekki alltaf í tölfræðinni, eins og að spila vörn, skutla sér á alla lausa bolta, en þannig hlutir skipta mig mestu máli. Jú, ég get skorað og gert allt hitt en þessir litlu hlutir vinna leikina.“

Hvernig leggst þetta tímabil í þig?
„Þetta tímabil leggst bara vel í mig. Auðvitað er liðsmarkmiðið að vinna deildina okkar aftur og komast í March Madness og fara lengra heldur en við gerðum í fyrra. Persónulega er það bara að bæta mig með hverjum deginum,“ en Jón segist stefna á atvinnumennsku eftir að námi líkur. Jón leiðir liðið í stigaskorun þetta tímabilið með átján stig í leik, auk þess sem hann gefur flestar stoðsendingar.

Hélt að síminn ætlaði að springa

Á dögunum átti Jón stórleik gegn Wichita State, þegar hann skoraði 33 stig, eða meira en helming stiga Davidson í 57-53 sigri liðsins. „Ég hélt síminn ætlaði að springa eftir leikinn. Þetta er alltaf svo ýkt og mikið hérna í Ameríkunni, þannig maður lærir fljótlega að hunsa það bara og halda áfram að gera sitt besta með hverjum leik og sýna hvað maður getur.“

Nú er Ingvi litli bróðir þinn kominn í háskólaboltann líka. Hvernig er það fyrir ykkur fjölskylduna? „Það er bara fínt held ég, kannski erfitt fyrir Braga að vera allt í einu orðinn eini sonurinn eftir á heimilinu. Ég held það verði meiri breytingar þegar hann fer líka í skóla og enginn verður eftir. Þá held ég að foreldrar mínir muni bara flytja hingað út svo þau þurfa ekki að ferðast jafn mikið. Því núna eru þau að koma til USA og fljúgandi á milli mín og Ingva svo þau geti horft á sem flesta leiki hjá okkur báðum. Þannig þetta ferðalag fyrir þau er ekkert grín, það er örugglega stærsta breytingin að núna þarf að heimsækja tvo staði ekki bara einn. Þau eru  einstök og liðsfélagir mínir eru alltaf jafn hissa þegar þau sjá foreldra mína hérna aftur og aftur í heimsókn hjá mér. Það hjálpar alveg gríðarlega mikið að fá þau alltaf til sín,“ segir Grindvíkingurinn öflugi að lokum.