Á leið niður Öxnadal
Dágóður spotti er að baki hjá hjólagörpunum sem eru nú á leið niður Öxnadalinn en þeir héldu af stað frá Reykjanesbæ síðasta föstudag í hjólaför til styrktar ÍRB. Sundmenn ÍRB sem keppa á Aldursflokkamóti Íslands á Akureyri um næstu helgi hafa verið að safna áheitum á hjólagarpana sem stefna að því að vera komnir til Akureyrar um kl. 15
í dag.
Á föstudagskvöld gisti hópurinn í Borgarnesi en garparnir voru árrisulir og lögðu af stað á laugardagsmorgun kl. 07:00 og komust að Hvammstanga þar sem gist var um kvöldið. Ferðin að Hvammstanga var nokkuð erfið sökum hvassrar Norðanáttar en sunnudagurinn var hjólaður í rjómablíðu og þegar Víkurfréttir náðu tali af hjólreiðaköppunum í
morgun voru þeir að renna niður Öxnadalinn.
„Norðanvindurinn er á móti okkur niður dalinn núna en ferðin í heild hefur gengið mjög vel,” sagði Haraldur Hreggviðsson einn af hjólagörpunum. „Við ætlum okkur að vera komnir inn á Akureyri um klukkan þrjú í dag þar sem Sunddeild Óðins mun taka á móti okkur,” sagði Haraldur en þá verður frekari fregna að sundmönnum að vænta
síðar í dag.
VF-mynd/ Stefán Þó[email protected] - Hjólreiðamenn ÍRB á föstudag þar sem Víkurfréttir hittu þá í upphafi ferðar í Hafnarfirði.