Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

A.J. Moye leiddi Keflavík til sigurs
Mánudagur 6. febrúar 2006 kl. 09:59

A.J. Moye leiddi Keflavík til sigurs

Keflavík sigraði nágrannaslaginn gegn Njarðvík í gær 89 – 85 en liðin léku í 4ra liða úrslitum í Bikarkeppni KKÍ og Lýsingar. A.J. Moye fór á kostum og gerði 33 stig fyrir Keflavík ásamt því að hrifsa 10 fráköst. Jeb Ivey var stigahæstur hjá Njarðvík með 30 stig og 4 stoðsendingar.

Keflvíkingar hófu leikinn af krafti og leiddu 32 – 24 að loknum 1. leikhluta þar sem A.J. Moye setti tóninn. Keflvíkingar bættu í og leiddu í hálfleik 56 – 43.

Regluverkið brást ekki, hvorki hjá Njarðvíkingum né Keflvíkingum í síðari hálfleik. Njarðvíkingar sigruðu 3. leikhlutann 25 – 16 og söxuðu verulega á forskot Keflvíkinga sem hafa allt of oft átt slakan 3. leikhluta í vetur á meðan Njarðvíkingar hafa leikið hvað best í 3. leikhlutanum. Keflavík stóðst þó áhlaupið og var enn yfir að loknum 3. leikhluta 72 – 68.

Fjórði og síðasti leikhlutinn var svo æsispennandi allt til loka. Friðrik Stefánsson þurfti frá að hverfa með sína fimmtu villu þegar 9 mínútur voru til leiksloka og um svipað leiti fékk Halldór Karlsson sína lokavillu. Njarðvíkingar náðu mest að minnka muninn niður í 2 stig en lengra komust þeir ekki og höfðu Keflvíkingar sigur á Njarðvík 89 – 85, og brutu þar með á bak aftur sjö leikja sigurgöngu Njarðvíkur á Keflavík.

Jón Hafsteinsson lék á ný með Keflavík eftir að hafa verið frá vegna meiðsla en hann gerði 4 stig í leiknum á 14 mínútum. Keflavík lék á 10 mönnum í leiknum en Njarðvík lék á átta leikmönnum. Yfirburðir Keflavíkur voru miklir í fráköstunum en þeir tóku 42 fráköst í leiknum á móti 25 fráköstum hjá Njarðvík.

Keflavík þreytir því enn einn nágrannaslaginn í bikarnum er þeir mæta Grindavík í Laugardalshöll þann 18. febrúar í úrslitaleiknum í Bikarkeppni KKÍ og Lýsingar.

„Við komum til þess að leika körfubolta hérna í kvöld en það var eitthvað allt annað sem fór fram,“ sagði Friðrik Stefánsson, miðherji Njarðvíkinga, í samtali við Víkurfréttir í gær.

„Seinni hálfleikurinn var ekki vel leikinn hjá hvorugu liðinu en við unnum og það er það sem skiptir máli,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur.“

Tölfræði leiksins

Smellið hér til að skoða myndasafn frá leiknum

Video: Myndir úr leiknum. (.wmv)

VF – myndir/ JBÓ

 

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jóhann Árni gerði 7 stig fyrir Njarðvík í gær

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

A.J. Moye varði troðslutilraun frá Brenton með eftirminnilegum hætti

 

 

 

 

 

 

 

 

Ivey gerði 30 stig fyrir Njarðvík

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024