Á góðum batavegi
Gylfi Freyr Guðmundsson, Íslandsmeistari í Motocrossi, er á góðum batavegi eftir aðgerð sem hann fór í á öxl í desember. Gylfi fór fyrst úr axlarlið í vinstri öxl í apríl 2006 og á bikarmóti í september á síðasta ári datt hann tvisvar á öxlina. Eftir það var öxlin að angra hann en Gylfi hélt út Íslandsmótið og fór svo í aðgerð í desember.
,,Hendin er góð og ég get hreyft hana núna en hún á það til að verða aum,” sagði Gylfi sem stundar líkamsræktina núna af krafti til þess að koma öxlinni aftur í samt horf. Gylfi Freyr á Íslandsmeistaratitil að verja en fyrsta mótið sem hann tekur þátt í á keppnisárinu fer fram í apríl.
Gylfi sagði ennfremur að hann ætti um mánuð eftir af bataferlinu og myndi koma aftur sterkur til leiks í sumar. Hann mun á næstunni hefja æfingar á keppnishjólinu sínu en hann hefur ekkert ekið síðan hann fór í aðgerðina.