Á góðri leið að 1. deild
Albert Sævarsson hefur haldið Njarðvíkurmarkinu hreinu fjóra leiki í röð og í þessum fjórum leikjum hefur hann gert tvö mörk, bæði úr vítaspyrnu. Þegar 13 umferðum er lokið í 2. deild eru Njarðvíkingar ósigraðir á toppi deildarinnar með 33 stig og fjögurra stiga forskot á Fjarðarbyggð í 2. sætinu.
Gæði knattspyrnunnar stóðust ekki samanburð við sumarblíðuna á Njarðvíkurvelli í upphafi leiks í kvöld. Heimamenn virtust hálf værukærir til að byrja með og hvorugt liðið náði að skapa sér hættuleg færi framan af.
Aron Smárason gangsetti loks leikinn á 36. mínútu þegar hann kom Njarðvíkingum í 1-0. Guðni Erlendsson tók aukaspyrnu á hægri kantinum og sendi boltann inn í teig, eftir smávægilegt klafs í teignum kom Aron stórutá í boltann og í netið fór hann. Njarðvík 1-0 Völsungur og það lifnaði aðeins yfir leiknum en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik.
Njarðvíkingar tóku öll völd á vellinum strax í upphafi síðari hálfleiks og hreinlega þverfótuðu vart fyrir marktækifærum. Eyþór Guðnason gerði svo annað mark Njarðvíkinga á 55. mínútu með skalla og staðan því 2-0 Njarðvíkingum í vil.
Þrátt fyrir urmul af fínum færum var staðan 2-0 fyrir heimamenn fram að 80. mínútu þegar brotið var á Guðna Erlendssyni í teignum. Dómari leiksins dæmdi réttilega vítaspyrnu og markvörðurinn Albert Sævarsson hóf þá vítahlaup sitt frá Njarðvíkurmarkinu. Albert var öryggið uppmálað og sendi boltann í hægra hornið neðarlega eins og heimsklassa framherji myndi gera. Þetta var hans annað mark í fjórum leikjum í sumar.
Njarðvíkingar stefna nú hraðbyri á 1. deildina en Helgi Bogason, þjálfari Njarðvíkinga, segir sína menn taka einn leik í einu. „Við erum á góðri leið með það að komast í 1. deildina en við tökum þetta bara einn leik í einu,“ sagði Helgi. „Við erum vel skipulagðir í vörninni og marktækifærin gegn okkur hafa verið fá,“ sagði Helgi en lærisveina hans bíður gríðarstórt verkefni í næstu viku þegar Njarðvíkingar mæta Fjarðarbyggð sem er í 2. sæti. „Það vilja allir spila í svona slag og þetta verður jafn leikur tveggja sterkra liða,“ sagði Helgi að lokum.
Toppslagur Njarðvíkinga gegn Fjarðarbyggð fer fram á Eskifjarðarvelli laugardaginn 12. ágúst kl. 14:00.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ [email protected]
Mynd 1: Aron Smárason fagnaði sínu áttunda marki í 2. deild í kvöld en hann er næst markahæsti leikmaður deildarinnar.