Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Á bak við tjöldin
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 23. september 2023 kl. 06:00

Á bak við tjöldin

Keflvíkingurinn Garðar Örn Arnarson var rekinn úr framhaldsskóla en fann sína fjöl í Kvikmyndaskólanum og í framhaldi við gerð íþróttasjónvarpsefnis. Hefur fengið þrjár Eddur. Er hugmyndasmiðurinn að hinu vinsæla Körfuboltakvöldi.

Keflvíkingurinn Garðar Örn Arnarson er maðurinn á bak við tjöldin í orðsins fyllstu merkingu. Hann er hugmyndasmiðurinn á bak við hinn geysivinsæla sjónvarpsþátt um íslenskan körfuknattleik, Körfuboltakvöld. Garðar stundaði körfuknattleik og fótbolta á yngri árum en sá að hans biði ekki frami inni á vellinum og færði sig því í staðinn aftur fyrir kvikmyndatökuvélina má segja en hann nam í Kvikmyndskóla Íslands áður en hann hóf störf hjá Stöð 2 Sport. Í dag er hann kominn í stjórnendastöðu innan fyrirtækisins, er gæðastjóri Stöð 2 Sport, er yfirframleiðandi á innlendu íþróttaefni og býr til heimildarmyndir um íþróttafólk. Hann er líka farinn að vinna að sjónvarpsefni um aðrar hliðar íþrótta en von er á nýrri heimildarþáttaröð á Stöð 2 í vetur sem heitir Hliðarlínan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Garðar fæddist og ólst upp í Keflavík en fjölskyldan fluttist í Hafnarfjörð þegar Garðar var sjö ára en það kom ekki í veg fyrir að Keflavík nyti krafta hans áfram inni á vellinum. „Ég mætti á eina körfuboltaæfingu hjá Haukum en kom grátandi af henni og sagði mömmu og pabba að ég myndi sko ekki mæta á fleiri æfingar og keyrði því frá Hafnarfirði til Keflavíkur á hverjum degi upp allan grunnskólaaldurinn. Mamma eða pabbi skutluðu mér eða ég tók rútuna, ég gisti allar helgar hjá ömmu og afa eða vinum. Öll sumur við lok grunnskóla sótti afi Gaui mig í Hafnarfjörð og skutlaði mér aftur heim í ágúst, ég bjó hjá þeim öll sumur og æfði þá fótbolta svo ég hélt alltaf góðum tengslum við heimabæinn. Þegar grunnskóla lauk fór ég í FS en ég sýndi félagslífinu talsvert meiri áhuga en náminu og var einfaldlega rekinn úr skólanum. Án þess að bera það undir nokkurn skráði ég mig í Kvikmyndaskóla Íslands og kláraði það nám á tveimur árum. Á þeim tíma gerði ég tvær heimildarmyndir, 1989: Upphafið að Stórveldinu sem fjallar um fyrsta Íslandsmeistaratitil Keflavíkur í körfu og gerði svo mynd um knattspyrnumanninn Guðmund Steinarsson, GS#9. Strax eftir útskrift hóf ég vinnu við gerð heimildarmyndar um Örlyg Sturluson, myndin heitir Ölli og sama dag og hún var frumsýnd fór ég í höfuðstöðvar Stöð 2 Sport með boðskort fyrir yfirmann íþróttadeildar, Hjörvar Hafliðason. Hann bauð mér vinnu á staðnum sem ég þáði með þökkum. Ég byrjaði á að vinna í grafík, bæði í beinum útsendingum og í þáttum, var að stjórna útsendingum á enska boltanum og vann mig svo upp í að gera þætti, ég gerði t.d. tíu þátta seríu um íslenskar knattspyrnugoðsagnir.“

Körfuboltakvöld

Vorið 2015 urðu kaflaskil hjá Garðari má segja. „Ég bar undir Óskar Hrafn Þorvaldsson, sem var tekinn við af Hjörvari, hugmynd um að fjalla betur um íslenska körfuboltann eins og gert var með fótboltann. Ég seldi honum hugmyndina þannig að framtíð íþróttaefnis í sjónvarpi væri íslenskt efni. Fram að þessu hafði verið sýndur einn körfuboltaleikur í beinni útsendingu í mánuði og engin önnur umfjöllun en þetta sumar var Ísland að taka þátt í lokakeppni Eurobasket í fyrsta skipti svo tímasetningin var fullkomin. Óskar Hrafn náði að sannfæra sína yfirmenn um ágæti þessarar hugmyndar og undirbúningur hófst. Svo var það í einu hádegishléinu að við sáum Kjartan Atla Kjartansson sem þá var blaðamaður á Fréttablaðinu, við vorum vissir um að hann yrði sá rétti til að stýra þættinum og Kjartan var strax til. Við þrír og Tómas Þór Þórðarson, sem er með enska boltann í dag á Símanum en var blaðamaður á Fréttablaðinu á þessum tíma, fórum að hanna þáttinn með það að markmiði að búa til íþróttaskemmtiþátt með körfuboltaívafi. Við réðum fljótlega fjóra spekinga; Fannar Ólafsson, Jón Halldór Eðvaldsson, Hermann Hauksson og Kristin Friðriksson, og þessi blanda einhvern veginn svínvirkaði. Við settum okkur markmið sem við ætluðum að ná á þremur árum en strax eftir hálft ár vorum við búnir að ná því og sömdum við KKÍ til lengri tíma.

Fótboltinn var búinn að ryðja brautina fyrir okkur má segja, það var búið að ganga frá góðri internettengingu á öllum völlum og íþróttahúsum og því gátum við verið að fylgjast með öllum leikjum í beinni útsendingu og hægt að klippa helstu atriði „live“, annars hefði þetta ekki verið hægt. Þetta var brjáluð vinna fyrstu þrjú árin eftir að Körfuboltakvöldið byrjaði því ég var að vinna við Meistaradeildina í fótbolta á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum og á fimmtudagskvöldum voru körfuboltaleikirnir. Þá var ég kannski mættur í vinnu klukkan tíu og var til fjögur, var svo mættur aftur klukkan sjö til að fylgjast með körfuboltaleikjunum og var kannski til fimm, sex næsta morgun að klippa leikina. Var svo mættur aftur klukkan tíu og vann fram að miðnætti þegar Körfuboltakvöldinu lauk í beinni útsendingu. Eftir þrjú ár bættist svo handboltinn við, þá voru sunnudags- og mánudagskvöldin svona líka en einhvern veginn tókst mér að láta þetta ganga upp og það er gaman frá því að segja að ég hef verið spurður að því hvort ég hafi átt mér einkalíf á þessum tíma, ég átti konu og var að kvænast henni um daginn,“ segir Garðar sposkur.

Eftir nokkur ár í botnlausri vinnu bauðst Garðari svo yfirmannsstaða og er í dag titlaður gæðastjóri Stöð 2 Sport og er yfirframleiðandi á innlendu dagskrárgerðinni á sportinu. Hann gefur pródúserum [útsendingarstjórum] þátta góða punkta, er með puttann á púlsinum og kemur með hugmyndir. Hann hefur líka verið að gera heimildarmyndir, gerði t.d. myndina um knattspyrnulið Víkings sem hefur verið sigursælt að undanförnu og líka þáttaseríu um körfuknattleiksmanninn Jón Arnór Stefánsson. Í bígerð er mynd um tvíburabræðurna af Akranesi, Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni, og svo verður gerð sería um körfuboltann í Njarðvík. Garðar segir að efnistökin séu í raun óþrjótandi og alltaf séu að koma hugmyndir að viðfangsefnum. Eins fór hann yfir hvernig barnið hans ef svo má segja, Körfuboltakvöldið, verður í vetur en Kjartan Atli, sem hefur verið stjórnandi, hættir þar sem hann er að þjálfa lið Álftnesinga sem komst upp í úrvalsdeildina eftir síðasta tímabil.

„Mér þykir mjög vænt um íþróttaheimildarefni, þarna liggur kannski minn grunnur. Ég fékk atvinnutilboðið frá Stöð 2 Sport vegna minnar vinnu við svona heimildarmyndir svo ég mun halda því áfram. Það er alltaf verið að gauka að mér hugmyndum, t.d. yrði Milan Stefán Jankovic mjög áhugaverður í svona heimildarmynd en efnisbrunnurinn er nánast óþrjótandi. Ef fólk vill ráðast í gerð svona heimildarmynda er ég allur af vilja gerður að gefa góð ráð.

Það verður skemmtilegt að sjá hvernig Körfuboltakvöldið mun þróast í vetur en nýr stjórnandi tekur við, Stefán Árni Pálsson. Kjartan skilur auðvitað eftir sig risastór spor en með nýjum mönnum koma nýjar áherslur. Ég hef tekið þátt í vinnunni við að hanna hvernig nýr þáttur verður og er spenntur. Aðalbreytingin er að nú verða fimm leikir spilaðir á fimmtudagskvöldum og einn aðalleikur í beinni útsendingu. Á hliðarrás verða svo tveir spekingar í settinu ásamt Herði Unnsteinssyni og farið verður inn í alla leikina í beinni og fjallað um þá. Þetta form er mjög vinsælt í Bandaríkjunum, ég á ekki von á öðru en þetta muni falla vel í kramið hér líka. Á föstudögum er svo sjötti leikurinn í umferðinni í beinni og Körfuboltakvöldið verður sent út þaðan strax eftir leik. Kvennadeildinni verður líka gerð góð skil, þær spila á þriðjudögum og miðvikudögum og þáttur verður sýndur strax eftir stóra leikinn á miðvikudagskvöldinu.

Körfuboltinn á Íslandi er orðinn risastór og gaman frá því að segja að oddaleikurinn síðustu tvö ár var stærsti íþróttaáhorfsviðburður ársins í sjónvarpi. Þetta er mjög sjónvarpsvæn íþrótt og dregur fullt af fólki að skjánum sem hafði engan áhuga á körfubolta.“

Hliðarlínan, hin hliðin á íþróttum barna

Garðar hefur hingað til einbeitt sér að hinni hefðbundu hlið íþróttanna en hann fékk öðruvísi verkefni upp í hendurnar fyrir skömmu. „Lillý Valgerður Pétursdóttir, sem er fréttakona á Stöð 2, plataði mig með sér í verkefni sem er aðeins út fyrir minn þægindaramma ef svo má að orði komast. Þessi þáttasería sem heitir Hliðarlínan og fjallar um hina hliðina á íþróttum barna. Mun beina sjónum sínum, eins og nafnið ber með sér, að hinni hliðinni á íþróttum barna. Fyrsti þátturinn fjallar t.d. um foreldra, hvernig foreldrar eru að haga sér á mótum, hvaða pressu þau leggja á börnin sín o.s.frv. Til hvers eru börn að stunda íþróttir, er það til að hafa gaman af íþróttum eða er það vegna þess að foreldrar eru að neyða börnin sín í að vera í íþróttum? Ég hef upplifað þetta sjálfur þegar ég fer með mín börn á fjölliðamót, það er ótrúlegt að fylgjast með sumum foreldrum sem eru stöðugt að segja barninu sínu til, öskra á dómarann o.s.frv. Ég held að þetta sé sería sem muni vekja mikla athygli og vonandi að vekja foreldra til umhugsunar, hún kemur út núna í október, ég hlakka mikið til.

Ég mun halda áfram að vera stuðningsmaður Keflavíkur, það finnst mér best af öllu. Ég geng stoltur og glaður hvert sem ég fer sem Keflvíkingur, læt fólk vita að ég sé þaðan og er ekki feiminn við að bera Keflavíkurmerkið á mér hvar og hvenær sem er. Ég hef alltaf verið mjög stoltur Keflvíkingur, bæði af bænum sjálfum og svo auðvitað íþróttum bæjarins. Ég er að reyna ala þetta upp í dóttur minni í dag. Mínar tengingar eru við körfuna og fótboltann, ég æfði þær greinar upp alla yngri flokka og í dag er ég stjórnarmaður í aðalstjórn Keflavíkur og er því að reyna stækka sjóndeildarhringinn minn í íþróttalífi bæjarins,“ sagði Garðar Örn að lokum.

Við tökur á þáttum um Jón Arnór Stefánsson, körfuboltakappa.