9. og 10. flokkur Keflavíkur: Ferðasaga frá Spáni
Eftir endalausar fjáraflanir; klósettpappírssölu, flöskusöfnun, kökubakstur, maraþon og fleira, var loks komið að því. 9. og 10. flokkur kvenna frá Keflavík var á leið til Spánar í keppnis- og skemmtiferð, ásamt þjálfara og farastjóra.
Lagt var af stað upp í Flugstöð kl. 14:30 laugardaginn 24. júní og var ferðinni heitið til Barcelona. Eftir rúmlega fjögurra tíma flug lentum við á flugvellinum í Barcelona og keyrðum beint til Lloret de Mar. Komum á hótelið, Guitart Rosa rétt eftir miðnætti, snæddum smá kvöldkaffi og héldum svo beint í háttinn, enda leikur snemma næsta morgun.
Fyrsti leikurinn var gegn sænska liðinu Norrköping og töpuðum við honum 58-62, eftir nokkuð slakan leik að okkar hálfu. Eftir leikinn var mótssetningin, þar sem löndin voru kynnt og allir þjóðsöngvarnir spilaðir og fleira. Restina af deginum var bara slappað af, farið í sólbað, á ströndina, sumir skelltu sér á bananabát og svo voru aðrar sem kíktu í búðir á göngugötunni sem hótelið var á. Um kvöldið var farið út, borðuðum á veitingastað rétt hjá hótelinu og röltum svo niður í bæ þar sem aðeins “the daredevils” í hópnum fóru í Kúluna, þar sem þeim var skotið tugi metra upp í loftið, inni í kúlu festa með níðsterkum teygjum.
Næstu þrír dagar voru að mestu leyti með þeim hætti að við fengum frjálsan tíma á milli mála, þar sem við gátum ýmist legið í sólbaði, farið í sundlaugina, ströndina eða verslað til 3 því þá var hvíldartími og síðan var gert sig til fyrir leikina, sem voru klukkan 19:15. Eftir þá var farið út að borða og kíkt niður í bæ.
Annar leikurinn vannst með tíu stigum, 56-46 en hann var gegn spænska liðinu La Bisbal. Þar á eftir töpuðum við með sjö stigum gegn Geieg frá Svíþjóð, 67-60 en spiluðum þann leik þó ágætlega og gerðum okkar besta. :) Næsti leikur fór 63-38 fyrir Keflavík, en hann var gegn Cassanenc frá Spáni. Okkur að óvörum komst það svo í ljós að við hefðum komist í úrslit vegna jafnra undanúrslita.
Þá var komið að fimmtudeginum. Við lögðum af stað eftir morgunmat út á rútustöð þar sem við tókum strætó í vatnsrennibrautagarðinn Water World. Þá var bara að bera á sig nóg af sólarvörn og skella sér í rennibrautirnar eða öldulaugina, en fyrir þá sem vildu ekki eins mikið fjör og læti var einnig hægt að fara í “jacuzzi” sem var nokkurs konar heitur (volgur) pottur. Eftir að við komum upp á hótel var það bara sturta og dressa sig upp því nú átti að fara fínt út að borða. Jonni þjálfari fór með okkur á þennan bara fína veitingastað sem hann vissi um og var ýmist fengið sér steik eða eitthvað annað gott og voru stelpurnar einnig ánægðar með Mikka mús og Plútó ísana sína :)
Daginn eftir var komið að úrslitaleiknum sjálfum, en hann var gegn sænska liðinu Norrköping, sem við spiluðum við fyrst. Við byrjuðum leikinn vel og náðum smá forskoti sem við náðum síðan að halda út leikinn, en þurftum þó að hafa fyrir hlutunum. Við stóðum uppi með verðskuldaðan sigur, 55-45 og fögnuðum með tilheyrandi öskrum og látum (og vatnsskvettum). Þegar við komum uppá hótel var hoppað í laugina í búningunum, teknar myndir af öllu fjörinu og svo farið í sólbað og fengið sér bananasplitt að hætti hótelsins.
Um kvöldið voru mótsslitin og verðlaunaafhending. Öll liðin voru kölluð upp og gefnar gjafir og veitt verðlaun, og fengum við þennan fína bikar, ásamt verðlaunapeningum, bolum og fleiru. Telma Dís Ólafsdóttir var valinn mikilvægasti leikmaður mótsins (MVP), aldeilis frábær árangur hjá henni.
Síðasta deginum var eytt mikilvæga hluti eins og að fara á ströndina, í sólbað, klára að versla, fá sér McDonalds og fleira. Klukkan 8 átti rúta að koma og fara með okkur upp á flugvöll, en rútubílstjórinn hélt að hann ætti að koma kl. 9 þannig að við þurftum að hafa hraðann á við að innrita okkur og koma okkur inn í vél, þar sem við sátum ýmist fremst í flugvélinni, aftast, eða einhversstaðar þar á milli útaf því við vorum svo sein að tékka okkur inn. Þetta hófst þó allt að lokum og sváfu flestir alla leiðina í flugvélinni eftir langa en skemmtilega viku.
Þegar heim var komið biðu rósir og myndatökur frá okkar yndislegu foreldrum, sem gerðu þessa frábæru ferð að veruleika. Einnig viljum við þakka öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem styrktu okkur í fjáröflunum kærlega fyrir.
Hildur Björk Pálsdóttir
Myndasafn frá ferðinni má finna í Ljósmyndasafni Víkurfrétta hægra megin á síðunni