8 liða úrslitin halda áfram í kvöld
Haukar taka á móti Keflavík
Keflvíkingar leika í kvöld fyrsta leik sinn gegn Haukum i 8 liða úrslitum Domino´s deildar karla. Liðin enduðu í 4. og 5. sæti deildarinnar þar sem að Haukar tryggðu sér heimaleikjaréttinn í síðustu umferð deildarkeppninnar með sannfærandi sigri á Keflvíkingum í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði.
Þröstur Leó Jóhansson, leikmaður Keflavíkur er ekki í nokkrum vafa um að Haukar verði erfiður andstæðingur þegar VF heyrði í honum í vikunni.
Rimman leggst bara slétt vel í mig. Það má búast við hörkuslag þar sem bæði lið eru búin að eiga góða og slæma kafla í gegnum tímabilið. Það munaði einum leik á að heimavallarétturinn hefði verið okkar megin svo þetta verða 50/50 leikir. Tilfinningarnar sem vakna þegar þessi hátíð gengur í garð jafnast á við hin bestu barnajól. Nú er bara að beisla hugann og einbeita sér að einum leik í einu
Aðspurður um styrkleika Haukaliðsins og undirbúning Keflavíkurliðsins í vikunni hafði Þröstur þetta að segja:
Haukar eru með mjög stabílt lið. Sterkir á báðum endum vallarins ef þeir fá að fylgja sínu leikskipulagi. Þeir hafa góðan kana undir körfunni og eru með fullt af strákum sem má alls ekki missa sjónar af. Þeir eru mikið stemmingslið og við verðum að halda haus þegar þeir ná áhlaupum á okkur.
Við erum búnir að vera að fínpússa okkar leik undanfarna daga og andinn er góður. Við fórum síðan saman í Bláa lónið á þriðjudaginn þar sem var slakað á og borðaður dýrindis matur svona til að þjappa hópnum ennþá betur saman fyrir komandi átök. Við erum allir heilir og spenntir fyrir seríunni.
Leikur Hauka og Keflavíkur fer fram í Schenkerhöllinni að Ásvöllum í Hafnarfirði kl. 19:15 í kvöld og eru stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna til að styðja við bakið á sínum mönnum.